Innlent

Tímabært að ræða um siðferðileg gildi og forgangsröðun í heilbrigðisþjónustu

Sighvatur Arnmundsson skrifar
Svandís Svavarsdóttir, heilbrigðisráðherra.
Svandís Svavarsdóttir, heilbrigðisráðherra. Fréttablaðið/Anton Brink
 „Á heilbrigðisþingi verður fjallað um siðferðileg gildi og forgangsröðun í heilbrigðisþjónustunni. Það er tímabært að fram fari víðtæk umræða um þennan mikilvæga grundvöll flókinna ákvarðana sem heilbrigðisstarfsfólk þarf að glíma við á hverjum degi,“ segir Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra.

Heilbrigðisþing 2019 fer fram á Hilton Nordica í dag. Í fyrsta hluta þingsins verður fjallað um mannhelgi og virðingu fyrir mannlegri reisn. Einnig verður fjallað um þörf fyrir heilbrigðisþjónustu og rétt þeirra sem eru í viðkvæmri stöðu. Í síðasta hlutanum verður svo rætt um hagkvæmni og skilvirkni.

Svandís segir að ákvörðunum um siðferðileg gildi og forgangsröðun muni fjölga með nýrri tækni, flóknari lyfjum og framförum í vísindum og nýsköpun.

„Ég stefni að því að leggja fram þingsályktun um gildi og forgangsröðun á vorþingi til að treysta enn betur grundvöll okkar öfluga heilbrigðiskerfis.“

Umræðuefni þingsins tengist áherslum sem fram koma í heilbrigðisstefnu til 2030 sem samþykkt var á Alþingi í júní síðastliðnum.

Í aðdraganda þingsins var haldinn fjölmennur vinnufundur til að leggja grunn að umfjöllun þingsins. Þar tóku þátt stjórnendur og fagfólk frá stofnunum heilbrigðisráðuneytisins og fulltrúar háskólasamfélagsins.

Dagskrá heilbrigðisþings hefst klukkan 9 í dag og stendur til klukkan 16. Streymt verður frá þinginu á vefslóðinni heilbrigdisthing.is.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×