Áñez segir stjórnarskrá landsins kveða á um að hún taki við embættinu og hefur hún heitið því að boða til kosninga innan skamms.
Samflokksmenn Morales sniðgengu þingfundinn og hefur Morales sjálfur lýst Áñez sem hægrisinnuðum valdaræningja.
Áñez hélt á stórri biblíu þegar hún hélt inn í forsetahöllina og sagði „biblíuna nú snúa aftur í forsetahöllina.“
Hin 52 ára Áñez er lögmaður og harður andstæðingur Morales. Hún hefur áður gegnt embætti forstjóra sjónvarpsstöðvarinnar Totalvision og átt sæti í öldungadeild þingsins frá 2010. Hún er þingmaður Beni-héraðs.
Sem einn varaforseta þingsins tók Áñez yfir stjórn þingsins eftir að varaforseti landsins og forseti þingsins sögðu af sér. Hún hafi því verið næst í röðinni að taka við forsetaembættinu samkvæmt stjórnarskrá.
Evo Morales tók við forsetaembættinu í Bólivíu árið 2006. Hann var fyrstur manna af frumbyggjaættum til að gegna embættinu.