Handbolti

Tjörvi: Taflan lýgur ekki

Svava Kristín Gretarsdóttir skrifar
Tjörvi Þorgeirsson stýrir umferðinni. Hann var magnaður í kvöld.
Tjörvi Þorgeirsson stýrir umferðinni. Hann var magnaður í kvöld. vísir/bára
„Ég var vel stefndur fyrir leikinn“ sagði Tjörvi Þorgeirsson, leikmaður Hauka. Tjörvi skoraði ellefu mörk í sjö marka sigri Hauka á Selfyssingum í kvöld.

„Þetta var flottur leikur, sérstaklega sóknarlega. Varnarlega vorum við í vandræðum í fyrri hálfleik. Við vorum alltof flatir, sérstaklega á Hauk (Þrastarson). Við byrjuðum að plúsa hann, það gekk ágætlega.“

„Heilt yfir var þetta fínt en við eigum alveg inni varnarlega“ sagði Tjörvi ósáttur við varnarleikinn og að Selfoss hafi tekist að skora 29 mörk.

Grétar Ari Guðjónsson byrjaði í markinu hjá Haukum en varði aðeins 4 bolta í fyrri hálfleik, Andri Scheving kom inn í síðari hálfleik og varði 14 bolta. Tjörvi hrósar honum en segir að þeir hafi líka stigið upp varnarlega.

„Andri fór að verja vel í seinni en ég held að vörnin hafi líka hjálpað meira til í seinni hálfleik. Þetta endaði kannski í 7 mörkum en þeir fóru líka að gefa eftir undir lokin.“

Tjörvi átti afbragðsleik í dag, hann skoraði 11 mörk og stjórnaði sóknarleiknum. Hann tekur undir það að þetta hafi verið hans dagur.

„Ég var mjög vel stefndur fyrir leikinn og ég var að finna opnanir og nýta þær vel.“

Haukar eru taplausir að 9 umferðum loknum, Tjörvi segir að stemningin sé góð í hópnum og að taflan ljúgi ekki. Þeir hljóti því að vera besta liðið í deildinni.

„Taflan lýgur ekki, við erum efstir. Það er bara gaman hjá okkur, við förum í alla leiki til að vinna þá og það er að ganga upp“ sagði Tjörvi að lokum.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×