Miðflokkurinn auglýsti á dögunum eftir reynslusögum almennings um „kerfið“, óbilgirni af hálfu þess opinbera eða óeðlilegar hindranir stjórnkerfisins við stofnun eða reksturs fyrirtækja eða í daglegu lífi. Segir flokkurinn það hluta af forgangsverkefni sínum um að takast á við „báknið“.
Jón Pétursson, aðstoðarmaður Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar, formanns Miðflokksins, segir við Vísi að flokkurinn ætli að greina upplýsingarnar sem honum berast og raða eftir málaflokkum til að kortleggja það sem helst situr í fólki. Í framhaldinu reyni þingmenn að greiða úr málum í sínum málaflokki og finna lausnir.
„Það getur verið misjafnt hvað við gerum við sögurnar sem við fáum. Það getur verið að leggja til lagabreytingar, þingsályktanir eða einfaldlega að vekja athygli á hlutum sem margir lenda í og benda á leiðir til lausnar,“ segir Jón.

Taka ekki við neinu skoðunarlaust
Spurður að því hvort að flokkurinn muni sannreyna sögurnar sem berast segir Jón að það verði gert, meðal annars með fyrirspurnum til ráðherra. Eins séu þingmenn flokksins í mörgum tilfellum sérfróðir á sínu sviði.„Við munu skoða öll mál út frá mörgum hliðum. Við tökum ekki við neinu skoðunarlaust,“ segir hann.
Ekki liggur enn fyrir hvað verður um reynslusögurnar sem Miðflokkurinn fær í hendur. Jón segir að farið verði með þær sem trúnaðarmál og þær verði ekki birtar nema viðkomandi gefi fyrir því leyfi. Því reikni hann ekki endilega með því að sögurnar verði birtar.
Flokknum hafi þegar borist sögur um fólk sem hefur lent í óbilgirni af hálfu opinberra aðila, um langan tíma sem hefur tekið að fá úrlausn mála og að ná rétti þegar fólk hefur verið beitt rangindum og um óþarfar tafir þegar fólk sækir rétt sinn.
„Svoleiðis mál eiga ekki endilega við stefnu ákveðins flokks,“ segir Jón spurður að því hvort að sögurnar verði valdar sérstaklega til að falla að og styðja stefnumál Miðflokksins.