Sjá einnig:Enn á þeirri skoðun að Kristján Þór eigi að segja af sér
„Þannig veldur aðkoma að almennum ráðstöfunum, útgáfu reglugerða og þvíumlíkra þátta, almennt ekki vanhæfi. En sérstök hagsmunatengsl sem getur reynt á í einstökum afmörkuðum málum, þær sérstöku stjórnvaldsákvarðanir geta reynt á hæfisreglur en svo hvaða hagsmunaárekstrar það eru sem valda því að maður þarf að víkja, það er næsta spurning sem þá upp kæmi,“ segir Trausti Fannar Valsson, dósent við lagadeild Háskóla Íslands, sem var einn þeirra sérfræðinga sem komu fyrir nefndina í morgun.
Þórhildur Sunna Ævarsdóttir, formaður nefndarinnar telur tilefni til að kalla eftir frekari upplýsingum um tilfelli Kristjáns Þórs og Samherja. „Mér finnst alla veganna mikið tilefni til þess að ræða það með mínu fólki hvort að við eigum að fara fram á frumkvæðisathugun stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar eða hvort að slík athugun eigi mögulega betur heima einhvers staðar annars staðar,“ segir Þórhildur Sunna.
Stærra en ráðherrann
Þá telur hún mikilvægt að ræða einnig þann þátt málsins sem snýr að trausti og trúverðugleika stjórnkerfisins, en ekki aðeins hvað lítur að lögum og reglum.„Okkur hefur ekki borist sú gæfa, eins og nágrannaþjóðum okkar, að ráðherrar setji hagsmuni stjórnsýslunnar, setji hagsmuni ráðuneytisins, framar sínum eigin hagsmunum að fá að sitja áfram í ráðherrastóli,“ segir Þórhildur Sunna. „Það snýst ekkert endilega um hvort ráðherrann hefur rétt eða rangt fyrir sér eða hvort það er sanngjarnt eða ekki sanngjarnt að hann fái að sitja áfram í embætti. Það á alltaf að vera stærra heldur en hann sjálfur.“
Kristján Þór var spurður á Alþingi í dag hvort afstaða hans til afsagnar hafi breyst. „Ég hyggst einfaldlega vinna mína vinnu með sama hætti eins og ég hef gert, sinna mínu pólitíska starfi sem og embættisskyldum í ráðuneytinu með nákvæmlega sama hætti og af bestu samvisku, gæta að hæfi,“ svaraði Kristján Þór meðal annars.