Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu greindi frá því í gær að fíkniefnið Spice, hafi fundist í rafrettum hjá unglingum á höfuðborgarsvæðinu nýverið.
„Þetta hefst í rauninni á því að skólayfirvöld hafa samband við barnavernd með einhver torkennileg efni og það er rannsakað og efnagreint hjá háskólanum og þar kemur í ljós að um er að ræða svokallað Spice,“ segir Leifur Gauti, rannsóknarlögreglumaður hjá Lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu.

Spice yfirleitt fundist í fangelsum en ekki í almennri dreifingu
Fréttastofan greindi frá því í lok október að óvenju mikið af fíkniefninu hafi fundist við krufningu á fanga sem lést á Litla-Hrauni í lok sumars. Í fangelsinu hafa fangaverðir fundið efnið í miklu mæli frá árinu 2017.„Þetta hefur yfirleitt loðað við fangelsi bæði hér heima og erlendis og þróunin erlendis hefur sýnt að efnin færast meira og meira út á almennan markað,“ segir Leifur Gauti.
Leifur segir að sé mikið áhyggjuefni að efnið sé í almennri dreifingu og hvað þá á meðal barna og ungmenna. hann segir að þetta sé í fyrsta skipti sem fíkniefnið finnist í rafrettuvökva á Íslandi.
Ekki ljóst í hve mikilli dreifingu Spice er á almennum markaði. Hæpið að þetta sé eina tilfellið
„Nei, við vitum það ekki að svo stöddu,“ segir Leifur.Spice var sett í reglugerð um ávana- og fíkniefni haustið 2018 en í dag eru fimm afleiður efnisins ólöglegar hér á landi.
Lögreglan vill hvetja forráðamenn barna og unglinga til þess að vera á varðbergi. Efnið sé nær lyktarlaust og geta aukaverkanir við neyslu þess verið meðal annars aukinn hjartsláttur ofskynjanir, ofsóknaræði, kvíðaköst og árásargirni.
Leifur segir að ætla megi að efnið sé í meiri dreifingu en áður hefur verið haldið.
„Það er frekar hæpið að þetta sé einstakt tilfelli. Við höfum af þessu miklar áhyggjur. Erlendis er verið að selja þetta efni sem vape, sem THC upplausn og eitthvað álíka, sem það er alls ekki, þetta er miklu miklu hættulegra og skaðlegra efni,“ segir Leifur Gauti, rannsóknarlögreglumaður hjá Lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu.