Skoðun

Íslendinga í miðbæinn!

Kolbrún Baldursdóttir skrifar
Varla hefur farið fram hjá neinum umræða um miðbæinn, aðgengi að honum, skort á bílastæðum eða vandinn við bílastæðahúsin. Við lokun gatna fyrir umferð snarfækkaði heimsóknum Íslendinga í bæinn sem leiddi til lokunar margra verslana á þessu svæði sem ýmist hættu eða fluttu sig annað. Framkvæmdirnar í miðbænum hafa haft slæm áhrif og leitt til þrenginga gatna. Götur eru bútaðar niður með mismunandi akstursstefnu og sjá má afgirt vinnusvæði með tilheyrandi raski og ryki hvert sem litið er. Við Hörpu myndast of langar bílalestir vegna þrenginga í tengslum við framkvæmdir. Að lengja eigi gjaldskyldutímann og bæta við sunnudögum mun hafa enn meiri fælingarmátt. Í stað þess að gera allt til að laða fólk í bæinn virðist meirihlutinn í borgarstjórn gera flest til að fæla Íslendinga sem koma lengra að frá miðbænum og helst þá sem gera sig ,,seka" um að koma akandi. 

Kolaportið, sá einstaki markaður, hefur ekki farið varhluta af ástandinu. Þar hafa komum Íslendinga fækkað og má ekki síst rekja það til þess að fólki finnst erfitt að fá stæði í kringum Kolaportið. Kolaportið hefur verið vel sóttur markaðsstaður árum saman. Það er búið að vera grindverk í kringum Kolaportið í þrjú ár og ekki er lengur hægt að leggja á Miðbakkanum. Miðbakkanum var breytt í sumarmarkað en á veturna er hins vegar ekkert þar. Bílastæðahús eru vissulega til staðar. Fjölmargir eldri borgarar treysta sér ekki til að leggja í bílastæðahús. Fyrirkomulagið með slána og greiðslukerfið er meðal þess sem vekur óöryggi margra eldri borgara og einnig sumra ungra ökumanna. Í bílastæðahúsum er enga aðstoð að fá ef fólk lendir í vandræðum.

Auðvitað liggur það fyrir að bílastæðahús eru komin til að vera. En ef þau eiga að laða að alla aldurshópa þarf að gera þau aðlaðandi og kenna á þau. Því hefur ekki verið sinnt sem skyldi í Reykjavík. Til að laða enn frekar Íslendinga í miðbæinn mætti bjóða aftur upp á bílastæði á Miðbakkanum yfir vetrartímann. Það væri einnig þess virði að skoða hvort 60 ára og eldri gætu fengið frítt í t.d. eitt bílastæðahús borgarinnar, þó ekki væri nema um helgar, þar sem þeim yrði líka boðið upp á leiðsögn og kannski heitt kaffi áður en haldið er í bæinn.

Mörgu er enn hægt að bjarga

Nú þarf að bretta upp ermar, snúa við þessari óheillaþróun og bjarga því sem bjarga verður. Við verðum að gera allt til að laða Íslendinga í bæinn, fólk sem býr utan miðbæjar, í efri byggðum og utanbæjarfólk. Hægt er að byrja strax og gera margt sem ekki kostar borgina mikið. Sem dæmi má opna aftur göngugötur fyrir umferð þar sem tafir verða hvort eð er á að framkvæmdir hefjast. Flokkur fólksins mun leggja til á næsta fundi borgarstjórnar að opna aftur göngugötur fyrir umferð a.m.k. þar til að framkvæmdir hefjast og nota tímann sem fram undan er til að ræða við rekstraraðila á svæðinu. Auka þarf skilvirkni umferðarljósa og bæta við hægri beygjum án ljósa til að létta á umferðinni. Ástæðan fyrir þessu ástandi er fyrst og fremst fjöldi umferðarljósa, sem virðast ekki vera samstillt. Sem dæmi, þegar ekið er í átt að miðbænum og Hörpu hafa verið sett upp misvísandi ljós á móts við Landssmiðjulóðina þar sem ekið er að bílastæðakjallara Hörpu. Þar er búið að setja upp villandi ljósastýringu, þar sem gangandi og akandi umferð fær mismunandi skilaboð. Þarna var áður frárein til hægri án ljósastýringar. Þetta hefur skapað misskilning og tafir þannig að legið hefur við slysum.

Það væri einnig til bóta ef sökkt yrði á gönguljósum til móts við Hörpu sem loga reglulega þótt enginn ýti á gönguljósahnappinn. Við fyrstu gatnamót þar sem ekið er frá Hörpu eru umferðarljós með gönguljósum. Þessi ljós ættu að vera samstillt við ljósin á undan, ásamt gönguljósunum. Það er hins vegar ekki þannig og þess vegna myndast raðir að óþörfu. Um 40 metrum eftir gatnamótin frá Hörpu eru tvær gönguþveranir norðan megin götunnar, sem sameinast í eina við Seðlabankann. Önnur er án ljósa en hin með gönguljósum þar sem rofabox er fyrir gangandi til að kalla fram skiptingu. Síðari gönguþverunin með ljósastýringunni er núna lokuð með steinagirðingu og gönguljósin stillt á tíma, þannig að rautt ljós kemur á umferðina með reglulegu þéttu millibili, án þess að nokkur gangandi maður ýti á takkann, auk þess að þverunin er lokuð.

Þetta er algjörlega tilgangslaust og gerir ekkert nema stöðva akandi umferð að óþörfu. Á gatnamótunum við Geirsgötu er staða ljósanna erfið fyrir akandi umferð þar sem ekki eru uppsettir ljósahattar nema við stöðvunarlínuna en því sleppt hinum megin við gatnamótin. Þá eru gönguljós á öllum örmum gatnamótanna og þau tímastillt þannig að það er grænt á alla gangandi vegfarendur í töluverðan tíma í allar áttir og rautt á bílaumferðina, þó svo að enginn sé að ganga yfir. Þarna mætti setja hægri beygjuslaufu fram hjá ljósunum af Kalkofnsvegi inn á Geirsgötu. Það myndi létta mikið á þessu rúmlega 400 metra svæði við Hörpu, sérstaklega í vesturátt. Verst er ástandið á um 200 metra kafla við framkvæmdasvæði Landsbankans og að Geirsgötu.

Það eru sem sagt til ýmsar leiðir og útfærslur sem hægt er að skoða strax ef vilji er til að laga þetta ástand sem margir eru orðnir langþreyttir á. Borgarlína er sögð leysa allan vandann en borgarlína er bara enn einhvers staðar inn í framtíðinni.



Höfundur er borgarfulltrúi Flokks fólksins.





Skoðun

Skoðun

Þorpið

Alina Vilhjálmsdóttir skrifar

Sjá meira


×