Körfubolti

Borche: Of margir leikmenn voru komnir í jólafrí

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Borche var langt frá því að vera ánægður með ÍR-ingana sína í kvöld.
Borche var langt frá því að vera ánægður með ÍR-ingana sína í kvöld. vísir/daníel

„Margt fór úrskeiðis í kvöld. Við virtust vera tilbúnir fyrir leikinn en ekki þegar hann hófst. Leikáætlunin var góð en við framkvæmdum hana ekki,“ sagði Borche Ilievski, þjálfari ÍR, við Vísi eftir tapið fyrir Keflavík, 93-70, í kvöld.

„Við klikkuðum á fyrstu sex skotunum okkar og urðum stressaðir. Við vorum ekki nógu ákveðnir í sókninni og linir í vörninni.“

ÍR minnkaði muninn í sex stig í 2. leikhluta en nær komust Breiðhyltingar ekki.

„Við hleyptum þeim aftur á skrið og í hálfleik var munurinn 18 stig. Við ætluðum að reyna að minnka muninn niður í tíu stig fyrir lokaleikhlutann og byrja hann vel. En of margir leikmenn voru komnir í jólafrí,“ sagði Borche.

„Evan [Singletary] átti ekki góðan leik, Georgi [Boyanov] var ekki með, Danero [Thomas] reyndi og átti ágætis leik en það var ekki nóg. Ég þurfti meira framlag frá mörgum leikmönnum.“

Borche segir að ÍR-ingar þurfi að leggjast yfir leikinn og fara yfir það sem miður fór.

„Við þurfum endurskipuleggja okkur í jólafríinu og gera miklu betur. Þetta er allt annað lið en spilaði gegn Tindastóli í síðustu umferð. Við þurfum að læra af þessum leik,“ sagði Borche.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×