Umfjöllun og viðtöl: Keflavík - ÍR 93-70 | Keflvíkingar hringdu inn jólin með öruggum sigri

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Hörður Axel og félagar fara brosandi í jólafríið.
Hörður Axel og félagar fara brosandi í jólafríið. vísir/daníel

Keflavík vann afar öruggan sigur á ÍR, 93-70, þegar liðin mættust í 11. umferð Domino's deildar karla í kvöld.

Keflvíkingar voru yfir allan tímann og sigur þeirra var aldrei í hættu.

Reggie Dupree gaf tóninn með því að skora fyrstu ellefu stig Keflavíkur. Heimamenn voru miklu sterkari í upphafi leiks og komust í 19-2.

Keflavík var með yfirhöndina í 1. leikhluta og var tíu stigum yfir af honum loknum, 32-22.

ÍR skoraði fyrstu fjögur stig 2. leikhluta og minnkaði muninn í sex stig, 32-26. Keflavík svaraði með 7-0 kafla og náði aftur undirtökunum.

ÍR-ingar skoruðu ekki síðustu sex mínúturnar í 2. leikhluta og voru 18 stigum undir að honum loknum, 46-28.

ÍR spilaði betri vörn í 3. leikhluta og lét Keflavík hafa meira fyrir hlutunum. Breiðhyltingum gekk samt illa að minnka muninn og náðu honum aldrei í minna en tólf stig.

Magnús Már Traustason skoraði síðustu fjögur stig 3. leikhluta og Keflavík leiddi með 16 stigum, 62-46, að honum loknum.

Í 4. leikhluta dró enn í sundur með liðunum og Keflvíkingar unnu á endanum öruggan sigur, 93-70. Góður sigur sem kórónaði flottan fyrri hluta tímabilsins hjá Keflavík.

Af hverju vann Keflavík?

Keflvíkingar jörðuðu ÍR-inga undir körfunni, skoruðu 42 stig gegn 34 inni í teig og unnu frákastabaráttuna, 26-32. Þá létu heimamenn boltann ganga vel og voru með 28 stoðsendingar í leiknum.

ÍR-ingar settu Keflvíkinga aldrei undir neina pressu og áhlaup þeirra voru máttlítil.

Hverjir stóðu upp úr?

Milka skilaði glæsilegri tölfræðilínu; 16 stigum, 14 fráköstum og 14 stoðsendingum. Hörður Axel Vilhjálmsson daðraði einnig við þrefalda tvennu; var með átta stig, tíu fráköst og átta stoðsendingar.

Ágúst Orrason var stigahæstur Keflvíkinga með 23 stig. Fyrir leikinn í kvöld var hann aðeins með 1,8 stig að meðaltali í leik. Eins og áður sagði gaf Reggie tóninn fyrir Keflavík og skoraði 13 stig, öll í fyrri hálfleik. Auk þess spilaði hann góða vörn á Evan Singletary sem náði sér engan veginn á strik hjá ÍR.

Collin Pryor var stigahæstur ÍR-inga með 19 stig. Danero Thomas átti einnig ágætan leik.

Hvað gekk illa?

ÍR-ingar voru ólíkir sjálfum sér í vörninni og Keflvíkingar fengu að gera það sem þeir vildu. Sóknin var stirð og gestirnir áttu á löngum köflum erfitt með að skora.

Tveir stigahæstu leikmenn ÍR í vetur, Singletary og Georgi Boyanov, hefðu þurft að skila meiru en þeir gerðu. Þeir hafa sjaldan leikið jafn illa á tímabilinu og þeir gerðu í kvöld.

Hvað gerist næst?

Liðin eru komin í jólafrí. Fyrsti leikur ÍR á nýju ári er einnig í Reykjanesbæ, gegn Njarðvík sunnudaginn 5. janúar. Degi síðar tekur Keflavík á móti Tindastóli.

Hjalti vildi vera með einn sigur í viðbót.vísir/daníel

Hjalti: Aðeins undir markmiðinu

Hjalti Þór Vilhjálmsson, þjálfari Keflavíkur, var ánægður eftir leikinn, bæði með úrslitin og frammistöðu sinna manna.

„Þetta liðssigur, margir lögðu í púkkið og þetta var bara vel gert, bæði í vörn og sókn,“ sagði Hjalti eftir leik.

Keflavík byrjaði leikinn af miklum krafti, komst í 19-2 og leiddi allan tímann.

„Þeir minnkuðu þetta allt í einu í sex stig en þá gáfum við aftur í. Mér fannst við betri í þessum leik,“ sagði Hjalti.

Hann kvaðst ánægður með frammistöðu Keflvíkinga í heildina.

„Það var gott flæði í sókninni og við vorum fastir fyrir í vörninni. Uppleggið gekk upp,“ sagði Hjalti.

Keflavík fer í jólafríið með 16 stig af 22 mögulegum.

„Þetta er flott. Aðeins undir markmiðinu en öðru leyti bara jákvætt,“ sagði Hjalti en að hans sögn stefndu Keflvíkingar á að vinna níu leiki fyrir áramót.

Borche var langt frá því að vera sáttur með frammistöðu sinna manna.vísir/daníel

Borche: Vorum linir í vörninni

„Margt fór úrskeiðis í kvöld. Við virtust vera tilbúnir fyrir leikinn en ekki þegar hann hófst. Leikáætlunin var góð en við framkvæmdum hana ekki,“ sagði Borche Ilievski, þjálfari ÍR, eftir tapið fyrir Keflavík í kvöld.

„Við klikkuðum á fyrstu sex skotunum okkar og urðum stressaðir. Við vorum ekki nógu ákveðnir í sókninni og linir í vörninni.“

ÍR minnkaði muninn í sex stig í 2. leikhluta en nær komust Breiðhyltingar ekki.

„Við hleyptum þeim aftur á skrið og í hálfleik var munurinn 18 stig. Við ætluðum að reyna að minnka muninn niður í tíu stig fyrir lokaleikhlutann og byrja hann vel. En of margir leikmenn voru komnir í jólafrí,“ sagði Borche.

„Evan [Singletary] átti ekki góðan leik, Georgi [Boyanov] var ekki með, Danero [Thomas] reyndi og átti ágætis leik en það var ekki nóg. Ég þurfti meira framlag frá mörgum leikmönnum.“

Borche segir að ÍR-ingar þurfi að leggjast yfir leikinn og fara yfir það sem miður fór.

„Við þurfum endurskipuleggja okkur í jólafríinu og gera miklu betur. Þetta er allt annað lið en spilaði gegn Tindastóli í síðustu umferð. Við þurfum að læra af þessum leik,“ sagði Borche.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira