Körfubolti

Vill fá tólf milljarða frá Russell Westbrook og Utah Jazz

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Russell Westbrook lenti saman við stuðningsmann Utah Jazz í mars.
Russell Westbrook lenti saman við stuðningsmann Utah Jazz í mars. Getty/ J Pat Carter

Stuðningsmaður Utah Jazz sem var sendur í ævilangt bann frá íþróttahöll félagsins hefur ákveðið að lögsækja bæði Utah Jazz og NBA-leikmanninn Russell Westbrook.

Atvikið gerðist á NBA leik í mars og stuðningsmaðurinn var sakaður um að hafa verið með kynþáttaníð gagnvart Russell Westbrook.

Utah Jazz sýndi honum enga miskunn og dæmdi hann í ævilangt bann frá leikjum félagsins.

Stuðningsmaðurinn telur hins vegar á sér brotið og ætlar með málið fyrir dómara.



Maðurinn er 45 ára gamall og heitir Shane Keisel. Hann vill nú ekki bara afsökunarbeiðni heldur einnig bætur fyrir sig og kærustu sína upp á heilar hundrað milljónir dollara eða um tólf milljarða íslenskra króna.

Shane Keisel segist hafa misst vinnuna vegna þessa máls og að hann hafi einnig mátt þola hótanir á netinu.

Shane Keisel segist vissulega hafa verið að kalla á Russell Westbrook en að þar hafi ekki verið um neina kynþáttafordóma að ræða.

Keisel sakaði Westbrook um að hóta kærustu sinni sem var með honum á leiknum. Westbrook fékk 25 þúsund dollara sekt fyrir að hafa kallað „I’ll f--k you up“ til Keisel og kærustu hans.

Russell Westbrook var þarna leikmaður Oklahoma City Thunder en hann leikur nú með Houston Rockets.

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×