Vegagerðin hefur kynnt matsáætlun vegna nýs vegar um Veiðileysuháls, helsta farartálmanum á Strandavegi í Árneshreppi. Í samgönguáætlun er búið að marka 750 milljónir króna til verksins, með 300 milljóna króna byrjunarframlagi á árinu 2024.
Matsáætlunin gerir ráð fyrir að tæplega tólf kílómetra kafli verði endurbyggður, frá botni Veiðileysufjarðar og vestur fyrir Djúpuvík, nánar tiltekið frá Kráku í Veiðileysufirði að Kjósará í Kjósarvík.

Þrjár breytingar eru lagðar til á vegstæðinu. Lagt til að vegurinn fari ekki í gegnum þorpið í Djúpuvík heldur yfir Kjósarhöfða, við Kúvíkur er lagt til að vegurinn liggi nær Kúvíkum og loks er lagt til að ofan eyðibýlisins Veiðileysu liggi vegurinn á stærstum kafla neðar í hlíðinni.
„Markmið framkvæmdarinnar er að bæta samgöngur á Vestfjörðum og hafa þar með jákvæð áhrif á samfélagið,“ segir í kynningu Vegagerðarinnar.

„Með nýjum vegi um Veiðileysuháls verða samgöngur í Strandasýslu áreiðanlegri og öruggari. Að loknum framkvæmdum verður mögulegt að halda veginum á milli Bjarnarfjarðar og Djúpuvíkur opnum allan ársins hring sé á annað borð ferðaveður,“ segir ennfremur.
Sjá einnig hér: Ekki réttlátt að vera lokuð inni í þrjá mánuði
Almenningi gefst kostur á að gera athugasemdir við matsáætlunina og er athugasemdafrestur til 20. janúar 2020.
Fjallað var um Veiðileysuhálsinn og Árneshreppsbúa í frétt Stöðvar 2 fyrir ári: