Maðurinn sem er grunaður um að hafa átt þátt í dauðsfalli manns í Úlfársárdal síðasta sunnudag hefur kært gæsluvarðhaldsúrskurð yfir sér til Landsréttar. RÚV greinir frá þessu. Farið var fram á gæsluvarðhald yfir honum á mánudag eftir að maður á sextugsaldri lést af sárum sínum þegar hann féll af svölum fjölbýlishúss.
Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu yfirheyrði fimm menn sem voru handteknir í tengslum við málið en einungis var farið fram á gæsluvarðhald yfir einum þeirra fram til 19. desember. Féllst Héraðsdómur Reykjavíkur á þá kröfu lögreglunnar og var hinum fjórum sleppt úr haldi.
Mennirnir eru allir frá Litháen samkvæmt heimildum fréttastofu og eru hér á landi í tímabundinni vinnu.
Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu fékk tilkynningu um miðjan dag síðasta sunnudag að karlmaður hefði fallið fram af svölum fjölbýlishúss við Skyggnisbraut í Úlfarsárdal.
Fjölmenn lið lögreglu- og sjúkraflutningamanna var sent á vettvang auk sérsveitar Ríkislögreglustjóra. Maðurinn var fluttur á slysadeild þar sem hann var úrskurðaður látinn.
Samkvæmt upplýsingum fréttastofu þurftu lögreglumenn að brjóta sér leið inn í íbúð á þriðju hæð þar sem fimm menn voru innandyra.
