Enn eru rafmagnstruflanir á Norðausturlandi og annars staðar þarf að skammta rafmagn, líkt og á Sauðárkróki.
Starfsmenn RARIK komu rafmagni áí Dalabyggð í gærkvöldi og er ekki von á frekara rafmagnsleysi þar. Keyrt var á díselvélum á Þórshöfn en þar kom upp bilun í gærkvöldi og er unnið að viðgerð þannig að rafmagnslaust hefur verið í Þistilfirði, á Þórshöfn og í Bakkafirði.
Hjá Landsneti hafa menn unnið hörðum höndum í alla nótt við að koma lagi á línurnar. Fimmtán manna vinnuflokkur er að vinna í tengivirkinu í Hrútatungu við að hreinsa tengivirkið af seltu. Allt kapp er lagt á að koma tengivirkinu í rekstur, segir á Facebook-síðu Landsnets.
Þá er vinnuhópur að störfum við Sauðárkrók að vinna við að koma Sauðárkrókslínu í rekstur.
Einnig var hópur á vettvangi í Ljósavatnsskarði við að tryggja öryggi vegfarenda, þar sem línan brotnaði við Þjóðveg 1.
Í gærkvöldi var síðan hópur frá Björgunarsveitunum, Rarik og verktakanum Víkurraf að afísa tengivirkið á Húsavík.