Kristján Gunnar Valdimarsson, lögmaður og lektor við Háskóla Íslands sem grunaður er um kynferðisbrot gegn þremur konum og um að hafa frelsissvipt þær, var leiddur fyrir dómara í Héraðsdómi Reykjavíkur fyrr í dag.

Lögreglan fór fram á framlengingu á gæsluvarðhaldi yfir honum. Enn hefur ekki fengist staðfest hvort það hafi gengið eftir.
Ónefndur maður kom að fréttamönnum Stöðvar 2 og Vísis eftir að Kristján Gunnar var kominn inn í dómshúsið og reyndi að koma í veg fyrir að myndir næðust af inngangi og stóð fyrir framan myndavélina í von um að koma í veg fyrir myndatöku. Þá höfðu fréttamenn þegar náð myndefni af Kristjáni þegar hann var leiddur inn í húsið.

Þá kom til ryskinga fyrir utan dómshúsið þegar maðurinn reyndi að koma í veg fyrir að RÚV næði myndum af því þegar Kristján Gunnar var leiddur út í lögreglubíl á ný. Ekki er vitað hvort eða hvernig maðurinn tengist Kristjáni eða málinu.