Úkraínsk yfirvöld og aðskilnaðarsinnar í austurhluta landsins skiptast nú á föngum en lengi hefur verið beðið eftir fangaskiptunum. Þetta sagði forsætisráðuneyti Úkraínu í tilkynningu á sunnudag.
Samkomulag um fangaskiptin náðist eftir viðræður í desember og er vonast til að skiptin muni bæta samskipti deiluaðila. Gert er ráð fyrir að yfivöld í Úkraínu framselji 87 aðskilnaðarsinna og aðskilnaðarsinnar muni skila 55 vígamönnum sem eru hliðhollir stjórnvöldum í Úkraínu.
Þetta eru önnur fangaskipti úkraínskra stjórnvalda og uppreisnarmanna en í september sendu Rússar 24 sjómenn sem rússneski herinn tók höndum í Kerch-sundinu í nóvember 2018 aftur til Úkraínu. Á móti sendu stjórnvöld í Úkraínu mann, sem grunaður var um aðild að því að skjóta niður farþegaflugvélaina MH17, þar sem 298 manns biðu bana, aftur til Rússlands.
Fréttin hefur verið uppfærð.
Fangaskiptin í dag fara fram nærri bænum Horlivka í Donetsk.
Í yfirlýsingu sem gefin var út í gær sagði skrifstofa ríkissaksóknara Úkraínu að þeir fangar sem væru ákærðir í Úkraínu þyrftu enn að mæta fyrir dóm.