Air Iceland Connect hefur leigt eina af Bombardier Q400-vélum sínum úr landi, TF-FXB, sem gekk undir heitinu Hallgerður langbrók, og er hún farin til Afríku. Þar með eru eftir í flota félagsins tvær vélar af lengri Q400-gerðinni, TF-FXA, Auður djúpúðga, og TF-FXI, Þórunn hyrna.

Að sögn Árna Gunnarssonar, framkvæmdastjóra Flugfélags Íslands ehf., var Hallgerður langbrók leigð til LAM-flugfélagsins í Mósambik, til næstu fimm ára. Félagið er að stærstum hluta í eigu mósambíska ríkisins og rekur sögu sína aftur til ársins 1936 og fékk leigutakinn Bombardier-vélina afhenta um síðustu mánaðamót.

Air Iceland Connect er þar með fimm vélar eftir í innanlandsflugi hjá félaginu en þrjár eru af styttri Q200-gerðinni. Þær eru TF-FXG, sem ber heitið Arndís auðga, TF-FXK, Þuríður sundafyllir, og TF-FXH, Þorbjörg hólmasól, en vélarnar eru einnig notaðar í Grænlandsflugi.
Ein af minni Q200-vélum Air Iceland Connect, TF-FXH Þorbjörg hólmasól, er áfram á söluskrá en fram kom í frétt Stöðvar 2 í sumar að vegna samdráttar í innanlandsfluginu hygðist félagið fækka flugvélum úr sex niður í fjórar.
Hér má sjá frétt Stöðvar 2 um málið frá því í sumar: