Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir dómsmálaráðherra hefur gert tillögu til forseta Íslands um skipun Ingveldar Einarsdóttur landsréttardómara sem dómara við Hæstarétt Íslands frá og með áramótum. Þetta var kynnt á fundi ríkisstjórnarinnar í morgun.
Davíð Þór Björgvinsson, Ingveldur Einarsdóttir og Sigurður Tómas Magnússon, öll dómarar við Landsrétt, þóttu hæfust umsækjenda um embættið.
Við skipan Ingveldar í Hæstarétt losnar embætti eins dómara í Landsrétti og verður það embætti auglýst laust til umsóknar fljótlega.
Hjörtur O. Aðalsteinsson, dómstjóri við Héraðsdóm Suðurlands, og Björg Thorarensen, prófessor við Háskóla Íslands, hafa verið sett tímabundið í embætti landsréttardómara frá 1. janúar 2020 til 30. júní 2020 skv. tillögu hæfnisnefndar.
Eitt embætti landsréttardómara til viðbótar hefur verið auglýst laus til setninga. Umsóknarfrestur er til 6. janúar næstkomandi. Sett verður í þau embætti eins fljótt og auðið er eftir að nefnd um um hæfni umsækjenda um embætti dómara skilar umsögn sinni.