Tónlist

Une Misère leiða saman rapp­stjörnur, þunga­rokkara og drunga­pönkara

Hjalti Freyr Ragnarsson skrifar
Gunnar Ingi Jones, Fannar Már Oddsson, Jón Már Ásbjörnsson, Benjamín Bent Árnason og Þorsteinn Gunnar Friðriksson mynda Une Misère.
Gunnar Ingi Jones, Fannar Már Oddsson, Jón Már Ásbjörnsson, Benjamín Bent Árnason og Þorsteinn Gunnar Friðriksson mynda Une Misère. Une Misère

Fyrsta breiðskífa þungarokkssveitarinnar Une Misère, Sermon, kom út í byrjun nóvember og verður útgáfunni fagnað í Iðnó næstkomandi laugardag. Athygli er vakin á því að ekkert aldurstakmark er á tónleikana.

Samkvæmt Þorsteini Gunnari Friðrikssyni, bassaleikara sveitarinnar, stendur til að leika plötuna nýju í heild sinni, sem verði líklega ekki gert aftur. Þar á meðal eru að minnsta kosti tvö lög sem ekki hafa verið spiluð áður á tónleikum.

Það hefur verið í stefnuskrá sveitarinnar að brúa bilið milli alls kyns tónlistaráhugafólks á tónleikum sínum. Því eru upphitunarlistamennirnir af fjölbreyttum toga, en auk Une Misère sjálfra stíga á stokk rappkapparnir Birnir og Joey Christ og drungagengið Kælan mikla.

Í samtali við Vísi segir Þorsteinn, sem oftast er kallaður Steini Milljón, að þeir leitist í tónleikahaldi sínu við að reyna að „hafa þetta ekki eitthvað svona fyrirsjáanlegt.“ Þeir vilji „hrista þetta upp og tengja saman mismunandi tónlistarstefnur.“

Upphitunaratriðin segir Steini vera góða félaga sveitarinnar.

Birnir kemur fram á tónleikunum í Iðnó á laugardaginn.vísir/vilhelm

Þeir hafi kynnst Joey Christ og Birni á Aldrei fór ég suður þegar þeir spiluðu í partýi fyrir listamennina og aðstandendur á sunnudeginum. „Þetta byrjar á að við hoppum á svið strákarnir í Une Misère og tökum lagið með Limp Bizkit, Break Stuff.“

Þegar þeir voru að stilla gítarana fyrir lagið þóttist Magni í Á móti sól vita að þeir væru að henda í annan þekktan slagara sem notast við sömu gítarstillingu. „Þá hoppar Magni á svið og segir „þið eruð ekkert að fara taka Killing in the Name of án mín.““

Sveitin tók því Killing in the Name of beint í kjölfarið á Break Stuff og einhvern æxlaðist það að á eftir þessum rokkslögurum spiluðu þeir undir Joey Christ, eða Jóhanni Kristóferi, og Birni í lögunum Joey Cypher og Já ég veit.

Tónleikaplakatið.

Kæluna miklu þekki þeir hins vegar einfaldlega í gegnum grasrótarsenuna, en flestir meðlimanna höfðu verið í fjölmörgum þungarokkssveitum áður en Une Misère var stofnuð.

Hörð stefna

Une Misère var samkvæmt Steina stofnuð í þeim tilgangi „að vera harðasta band Íslands.“ 

„Okkur fannst Nails vera harðasta band í heimi á þeim tíma,“ segir Steini. Það sem veiti þeim innblástur í dag sé mun fjölbreyttara og komi úr öllum áttum. „Þetta er meiri hræripottur núna.“ Steini nefnir þó sveitirnar Slipknot og Knocked Loose sérstaklega.

Á nýju ári leggur sveitin upp í tveggja vikna tónleikaferðalag um Mið-Evrópu, en á honum hita þeir upp fyrir Bandaríkjamennina í Darkest Hour, sem Steini segir spila „strangheiðarlegt metalcore“.

Þýski útgáfurisinn Nuclear Blast gefur plötuna nýju út, en upptökur á henni hófust í febrúar á þessu ári undir handleiðslu Sky van Hoff. 

Sveitin vakti fyrst athygli árið 2017 og þá meðal annars fyrir mixteipið 010717, sem eins og gefur að skilja kom út 1. júlí 2017.


Tengdar fréttir






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.