Efsti maður heimslistans Brooks Koepka segist slá boltann best allra á Opna breska risamótinu í golfi þrátt fyrir að vera sjö höggum á eftir efsta manni fyrir lokahringinn.
Koepka kom sér í fjórða sætið með tveimur fuglum á lokaholunum og hélt sér í baráttunni, þrátt fyrir að eiga erfitt verkefni fyrir höndum að sækja á Shane Lowry.
„Enginn hefur slegið betur en ég þessa vikuna,“ sagði Koepka. „Ég hef slegið eins vel og ég gæti óskað, en ég hef púttað verr en nokkur annar í mótinu.“
„Sem betur fer verður vindur á morgun, en ef ég á að eiga möguleika þarf ég að finna lausnir á púttinu.“
Lokahringurinn á Opna breska risamótinu er í beinni útsendingu á Stöð 2 Golf á morgun.
