Innlent

Gisti- og fæðipeningar ríkisstarfsmanna lækka um helming

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Hámarksgreiðslurnar lækka verulega fyrir ferðalög innanlands sem fela í sér gistingu.
Hámarksgreiðslurnar lækka verulega fyrir ferðalög innanlands sem fela í sér gistingu. Vísir/Vilhelm
Ferðakostnaðarnefnd hefur ákveðið dagpeninga til greiðslu gisti- og fæðiskostnaðar ríkisstarfsmanna á ferðalögum innanlands á vegum ríkisins. Þetta kemur fram í tilkynningu á vef stjórnarráðsins en greiðslur fyrir gistingu og fæði í einn sólarhring lækka verulega. Minnt er á að um hámarksupphæðir sé að ræða og meginreglan sé sú að greitt sé eftir reikningi.

Dagpeningarnir fyrir gistingu og fæði í einn sólarhring fer úr 32.500 krónur í 22.700 krónur. Þá lækka dagpeningar fyrir gistingu í einn sólarhring úr 20.600 krónum í 10.700 krónur.

Minniháttarbreyting er á dagpeningum fyrir fæði hvern heilan dag og hálfan dag. Upphæðin lækkar annars vegar úr 12 þúsund krónurm í 11.900 krónur og fyrir hálfan dag úr 6 þúsund krónum í 5950 krónur.

Dagpeningar þessir gilda frá og með 1. október 2019. Jafnframt fellur úr gildi auglýsing nr. 2/2019 dags. 15. maí 2019. Nefndin fer þess á leit við ráðuneyti og stofnanir að viðmiðunarfjárhæðir um greiðslur dagpeninga um gistingu og veitingar verði kynntar starfsfólki.

Athygli er vakin á að meginreglan er að greiða skal kostnað vegna ferðalaga innanlands, s.s. fargjöld, fæði og gistingu, eftir reikningi. Viðmið ferðakostnaðarnefndar eru hámarksupphæðir vegna greiðslu slíkra reikninga.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×