Innlent

Karl Gauti sakar Ingu Sæland um stjórnunarhætti sem tíðkist ekki

Berghildur Erla Bernharðsdóttir skrifar
Karl Gauti Hjaltason þingmaður sem var rekinn úr Flokki fólksins sakar formann flokksins um óeðlilega fjármálastjórn og að hafa ráðið náinn fjölskyldumeðlim á skrifstofu flokksins. Slík viðgangist ekki í félagastarfi.
Karl Gauti Hjaltason þingmaður sem var rekinn úr Flokki fólksins sakar formann flokksins um óeðlilega fjármálastjórn og að hafa ráðið náinn fjölskyldumeðlim á skrifstofu flokksins. Slík viðgangist ekki í félagastarfi.
Karl Gauti Hjaltason óháður þingmaður sakar Ingu Sæland formann Flokks fólksins um óeðlilega fjármálastjórn í aðsendri grein í Morgunblaðinu í dag undir yfirskriftinni „Erilsamt ár að baki“.

Karl Gauti er einn af sex þingmönnum sem ræddu saman á Klausturbar í lok nóvember á síðasta ári en á barnum var farið ófögrum orðum um Ingu, leiðtoga flokksins. Upptaka af samræðunum var send á þrjá fjölmiðla til birtingar og í kjölfarið voru bæði Karl Gauti og Ólafur Ísleifsson reknir úr flokknum.

Karl Gauti segir að ummæli sín á Klausturbarnum tengist gagnrýni sem hann hafði viðhaft innan Flokks fólksins.

„Ég varð var við það eftir að þetta mál kom upp í nóvember að fólk setti spurningamerki um hvað ég hafði sagt um formann flokksins og ég er að skýra það að gagnrýnin sé ekki ný, ég hafði borið hana upp við formanninn áður,“ segir Karl Gauti, 

Hann segir gagnrýni sína fyrst og fremst felast í fjármálastjórn formannsins í flokknum en hann hafi rætt hana í stjórn flokksins og innan hans. 

„Það er auðvitað mjög óeðlilegt að stjórnmálaleiðtogi í flokki sem hefur yfir að ráða verulegum fjármunum úr almannasjóðum og er alls ráðandi þarna innanborðs sem prófkúruhafi, gjaldkeri og formaður sé að ráða þarna inní flokkinn sína nánustu fjölskyldumeðlimi á launaskrá á skrifstofu flokksins,“ segir Karl Gauti. 

Aðspurður um hver fjölskyldumeðlimurinn sem um ræðir sé vill Karl Gauti ekki gefa það upp. 

„Ég vil ekki fara út í það, þið verðið bara að komast að því eftir öðrum leiðum,“ segir Karl Gauti. 



Hann segir að ekki hafi verið brugðist við gagnrýninni meðan hann var í flokknum. En hann hafi hins vegar ekki séð nein dæmi um að óeðlilega væri farið með fjármuni.

„Ég var ekki verið í aðstöðu til að kanna einstaka liði þarna, ég er nýkominn inní stjórnina,“ segir hann.

Hann segir að slíkir stjórnunarhættir tíðkist ekki í félagastarfi. 

„Í félagastarfsemi hef ég ekki heyrt dæmi þess að formaður í félagi sem fær gríðarlega fjármuni úr almannasjóðum sé bæði formaður og gjaldkeri félagsins, ég hef aldrei heyrt það,“ segir Karl Gauti.

Aðspurður um hvort hann sé með þessu ummælum að bregðast við því að hafa verið rekinn úr flokknum svara Karl Gauti.

„Ég er að svara þessari  gagnrýni að ég hafi verið að tala í bakið á mínum formanni en ég tel mig ekki hafa verið að gera það því ég hafði nefnt þetta innan flokks,“ segir Karl Gauti. 

Fréttin hefur verið uppfærð kl. 12:56




Fleiri fréttir

Sjá meira


×