Yfirvöld vinna nú að varanlegri lokun á austasta hluta Reynisfjöru þar sem stór skriða féll úr Reynisfjalli. Veðurstofan telur að þar eigi stór partur eftir að falla úr hlíðinni til viðbótar á næstunni.
Sveitarstjóri Mýrdalshrepps, Þorbjörg Gísladóttir, segir í samtali við Vísi að þessi ákvörðun hafi verið tekin að loka þessum hluta fjörunnar varanlega en nú sé skoðað hvort það sé gerlegt.
Mikill sjógangur er á þessu svæði og er verið að leggja drög að útfærslu sem á að þola öldur og vinda. Rætt hefur verið um að koma upp skilti og keðjum á þessu svæði þannig að það fari ekki á milli mála að staðurinn sé hættulegur og þeir sem hætti sér inn fyrir lokunarsvæðið geri það á eigin ábyrgð.
Greint var frá því í gær að ferðamenn hefðu farið inn fyrir lokunarsvæði á þessum hluta Reynisfjöru og klifrað upp á skriðuna sem féll úr Reynisfjalli fyrir rúmri viku. Daginn áður slösuðust ferðamenn þegar þeir urðu fyrir grjóthruni úr fjallinu.
Þorbjörg bendir á að þessi austasti hluti Reynisfjörunnar sé ekki sá staður sem flestir ferðamenn sækja. Þeir sæki meira í hellinn og stuðlabergið sem er í vesturhluta Reynisfjöru. Lokunin muni því hafa lítil sem engin áhrif á upplifun þeirra sem þangað mæta.
Ætla að loka austasta hluta Reynisfjöru varanlega

Tengdar fréttir

Ferðamenn klifruðu upp á skriðuna í Reynisfjöru
Virtu lokanir að vettugi.