Erlent

Var heima hjá sér eða í sumarbústað en rukkaði norska þingið um ferðakostnað

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Hege Haukland Liadal var fyrst kosin á þing árið 2013.
Hege Haukland Liadal var fyrst kosin á þing árið 2013. Mynd/Facebook
Hege Haukland Liadal, varaformaður héraðsdeildar Norska verkamannaflokksins í Rogalandi og þingkona flokksins á norska þinginu, steig til hliðar í morgun á meðan ásakanir á hendur henni um falska ferðareikninga eru rannsakaðar.

Norska dagblaðið Aftenposten greindi fyrst frá því í gær að á tímabilinu frá janúar 2017 til október 2018 hafi Liadal rukkað norska þingið um ferðakostnað upp á um hálfa milljón norskra króna, eða nær sjö milljónir íslenskra króna. Þar af hafi reikningar upp á að minnsta kosti sextíu þúsund norskar krónur ekki verið fyrir vinnuferðir á vegum þingsins heldur persónuleg frí, þar sem þingmaðurinn hafi ýmist haldið sig heima, farið í sumarbústað eða til útlanda.

Liadal greindi í kjölfarið frá því á Facebook-síðu sinni í morgun að hún hygðist stíga tímabundið til hliðar á meðan mál hennar yrði rannsakað. Mikilvægt sé að að allar staðreyndir málsins komi fram.

 

Liadal kveðst jafnframt ætla að greiða hinn falska kostnað til baka, og viðurkennir að hún hafi rukkað fyrir ferðir sem hún fór aldrei í, en segir einnig að nokkurs misskilnings gæti í málinu. Ferðakostnaðarkerfið sé flókið og þá hafi hún óvart skráð rangar dagsetningar á nokkra reikninga.

Jonas Gahr Støre, leiðtogi Norska verkamannaflokksins, tjáði norskum fjölmiðlum í dag að ákvörðun Liadal um að stíga til hliðar hafi verið viturleg. Þá sé mikilvægt að komast til botns í málinu.

Liadal var fyrst kosin á norska þingið fyrir Verkamannaflokkinn árið 2013 og sat í fjölskyldu- og menningarnefnd þingsins. Þá hefur hún starfað sem talsmaður flokksins í orkumálum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×