Bíll valt í Heiðmörk á sjötta tímanum í gær. Ökumaðurinn, ung kona, var ein í bílnum en í dagbók lögreglu segir að konan hafi verið í miklu uppnámi. Hún hafi þó sagst ómeidd.
Konan var flutt með sjúkrabifreið á slysadeild til aðhlynningar. Bifreiðin var fjarlægð með dráttarbifreið.
Á tíunda tímanum hafði lögregla afskipti af manni á heimili hans í fjölbýlishúsi í Breiðholti. Maðurinn er grunaður um vörslu fíkniefna.
Skömmu fyrir klukkan tíu var tilkynnt um þrjú ung börn, elsta barnið um tíu ára, með tombólu við verslun í Breiðholti. Málið var afgreitt með aðkomu foreldra.
Á þriðja tímanum í nótt var svo tilkynnt um eld í húsnæði í Breiðholti og var slökkvilið kallað á vettvang. Ekki eru gefnar frekari upplýsingar um málið í dagbók lögreglu.

