Saman komu ungmenni á aldrinum 12-18 ára með fatlanir, raskanir eða langvinna sjúkdóma. Fundarmenn sátu í hópum og skiptust á að benda á það sem betur má fara í skólakerfinu, tómstundum, íþróttum og á fleiri sviðum samfélagsins.
„Ég er kominn hingað til að láta rödd mína heyrast. Sjá hvað hægt sé að bæta fyrir okkur fatlaða fólkið. Ekki síst hvað hægt sé að gera fyrir aðstandendur fatlaðs fólks. Bæði hvað varðar skólakerfið, aðgengismál og almenna líðan,“ sagði Haukur Hákon Loftsson, nemandi í Menntaskólanum við Hamrahlíð.
„Það sem ég vonast til að við fáum niðurstöður í er bara hvað þarf að gera til þess að samfélagið og kerfin virki fyrir okkar unga fólk,“ sagði Þuríður Harpa Sigurðardóttir, formaður Öryrkjabandalags Íslands.

„Einnig þarf að virkja aðeins betur félagslegu hliðina. Það hefur oft verið þannig að fatlað fólk er mikið eitt með sjálfu sér og þá skiptir miklu máli að fólk hafi gott bakland til að eiga gott líf,“ sagði Haukur.
Sjálfur stundar Haukur nám í Menntaskólanum við Hamrahlíð og segir hann aðbúnað þar til fyrirmyndar.
„Aðgengismálin frábær, frábært starfsfólk og allir til í að hjálpast að. Mjög gott umhverfi fyrst og fremst,“ sagði Haukur.
Sólveig María og Kristrún Lilja eiga bræður sem glíma við raskanir. Þær sögðu að stórefla þyrfti fræðslu um fatlanir í skólum.
„Það þarf að tala við krakka í bekknum ef það er einhver einhverfur þar. Um þa hvernig á að vera í kring um þá,“ sögðu Sólveig María og Kristrún Lilja.
Öryrkjabandalagið mun svo fara með niðurstöður fundarins og leggja þær fyrir Félags- og barnamálaráðherra.
