Bandarískur karlmaður á áttræðisaldri er látinn eftir að hafa orðið fyrir árás af hendi stórum, ófleygum fugli í hans eigu.
Lögregla í Alachua-sýslu var kölluð að búgarði mannsins á föstudag þar sem komið var að manninum særðum eftir árás kasúa.
Maðurinn, Marvin Hajos, var fluttur á sjúkrahús þar sem hann lést af sárum sínum. Búgarðinn er að finna suður af bænum Alachua í norðurhluta Flórída, um 200 kílómetrum norður af Orlando.
Aðstoðarlögrreglustjórinn Jeff Taylor segir að vísbendingar séu um að Hajos hafi dottið og kasúinn ráðist á hann þar sem hann lá á jörðinni. Hajos hafði haldið ýmis framandi dýr á búgarði sínum um margra áratuga skeið, þar með talið lamadýr.
Kasúum svipar nokkuð til emúa og eru í hópi þeirra fugla sem verða stærstir og geta þeir orðið rúmlega 45 kíló að þyngd. Þeir eru ófleygir en geta náð allt að 50 kílómetra hraða á hlaupum og eru með langar klær á fótunum.
Risafugl varð Flórídabúa að bana
Atli Ísleifsson skrifar
