Allt kom fyrir ekki og Hannah valdi á endanum söngvarann Jed Wyatt og var ákvörðunin umdeild. Fréttir af því að Jed ætti í raun og veru kærustu í heimabæ sínum tóku að spyrjast út. Kærastan sjálf steig loksins fram og greindi frá því að hann hafði sagt henni að hann ætlaði í þættina til þess að koma tónlistarferli sínum á flug og ætti ekki von á því að ná langt í þáttunum.
Sjá einnig: Áhorfendur Bachelorette-þáttanna agndofa yfir lygilegum endalokum
Trúlofun Hönnuh og Jed var því skammlíf en í uppgjörsþætti þáttanna, sem fram fór tveimur mánuðum eftir lokaþáttinn sjálfan, lágu leiðir þeirra Hönnuh og Tyler aftur saman. Þar sagðist hún vera einhleyp ung kona sem bæri enn tilfinningar til hans og bauð honum á stefnumót, sem hann þáði.

Hannah hefur tjáð sig um meint samband Tyler og ofurfyrirsætunnar og sagði hann eiga fullan rétt á því að gera það sem honum sýnist. Fregnir af sambandi þeirra hafi hins vegar verið ögn ruglandi og hún sé ekki par sátt við hversu fljótur hann var að hitta fyrirsætuna eftir stefnumót þeirra. Það hafi verið sárt að heyra af honum á öðru stefnumóti aðeins tveimur dögum síðar.
„Við eyddum tíma saman, en við ræddum líka að það væri ennþá eitthvað þarna. Og þegar þú ert opinber persóna þá þarftu að sýna hinum aðilanum virðingu. Já, ég hefði viljað að það hefðu liðið fleiri en tveir dagar. En þú veist, það er allt í lagi,“ sagði Hannah um stefnumótin.