Umfjöllun, viðtöl og einkunnir: Breiðablik - KA 4-0 | Yfirburðir Blika Ingvi Þór Sæmundsson skrifar 7. ágúst 2019 21:00 Alexander Helgi Sigurðarson býr sig undir að taka aukaspyrnuna sem hann skoraði annað mark Breiðabliks úr. vísir/DANÍEL Eftir 46 daga án sigurs vann Breiðablik KA, 4-0, á Kópavogsvelli í 15. umferð Pepsi Max-deild karla í kvöld. Sigur Blika var afar sannfærandi og varla veikan blett á þeirra liði að finna í kvöld. Á 21. mínútu kom Thomas Mikkelsen heimamönnum yfir þegar hann batt endahnútinn á frábæra sókn upp vinstri kantinn. Davíð Ingvarsson átti fasta fyrirgjöf meðfram jörðinni og Mikkelsen kom boltanum yfir marklínuna. Ekki nóg með að KA fengi á sig mark heldur þurfti markvörðurinn Aron Dagur Birnuson að fara af velli vegna meiðsla eftir markið. Kristijan Jajalo kom inn á í hans stað. Á 36. mínútu skoraði Alexander Helgi Sigurðarson annað mark Breiðabliks með frábæru skoti beint úr aukaspyrnu í stöng og inn. Staðan var 2-0 í hálfleik, Blikum í vil. KA-menn sýndu meiri sóknarhug í seinni hálfleik en ógnuðu marki Blika aldrei að neinu ráði. Ásgeir Sigurgeirsson komst næst því að skora á 54. mínútu en skot hans fór framhjá. Þrátt fyrir að KA væri meira með boltann lengst af í seinni hálfleik var Breiðablik alltaf hættulegri. Mikkelsen fékk þrjú góð færi áður en hann skoraði annað mark sitt á 80. mínútu. KA-menn töpuðu boltanum klaufalega eftir innkast, Guðjón Pétur Lýðsson átti fullkomna sendingu á Mikkelsen sem skoraði af öryggi, annað mark sitt í leiknum og það áttunda í sumar. Hann er næstmarkahæstur í deildinni á eftir Stjörnumanninum Hilmari Árna Halldórssyni. Þegar þrjár mínútur voru til leiksloka skoraði Brynjólfur Darri Willumsson fjórða mark Blika eftir sendingu frá Alfons Sampsted. Þetta var jafnframt fyrsta mark Brynjólfs Darra í efstu deild. Lokatölur 4-0, Breiðabliki í vil. Blikar eru áfram í 2. sæti deildarinnar og KA-menn í því ellefta og næstneðsta.Gunnleifur Gunnleifsson, fyrirliði og markvörður Breiðabliks, fagnar.vísir/daníelAf hverju vann Breiðablik? Það var ekki að sjá á Blikum að þeir hefðu ekki unnið leik síðan 22. júní. Þeir stjórnuðu leiknum allan tímann, hvort sem þeir voru með boltann eða ekki, og það var mikið öryggi yfir leik þeirra grænu. Í fyrri hálfleik héldu þeir boltanum vel og fengu líka allan þann tíma og allt það pláss sem þeir þurftu til þess. Blikar skoruðu tvö lagleg mörk og staða þeirra í hálfleik var góð. Í seinni hálfleik færðu KA-menn sig framar og sóttu af veikum mætti. Vörn Blika var þétt fyrir og þrátt fyrir að vera minna með boltann fengu heimamenn öll hættulegustu færin í seinni hálfleik. Þeir bættu tveimur mörkum við og þau hefðu getað orðið fleiri.Hverjir stóðu upp úr? Mikkelsen var beittur í framlínu Blika og skoraði tvö góð mörk. Guðjón Pétur var frábær á miðjunni og Alexander Helgi var mjög góður, sérstaklega í fyrri hálfleik. Davíð Ingvarsson lék vel í stöðu vinstri bakvarðar og lagði fyrsta mark Blika upp. Alfons stóð fyrir sínu í fyrsta leiknum fyrir Breiðablik eftir komuna frá Norrköping og lagði upp mark. Viktor Örn Margeirsson var vel á verði í miðri vörn Blika og Gunnleifur Gunnleifsson var afar öruggur í markinu. Hallgrímur Mar Steingrímsson reyndi og reyndi í liði KA en fátt gekk upp hjá honum. Þá fékk hann enga hjálp frá samherjum sínum.Hvað gekk illa? Eins og áður sagði fengu Blikar næði til að rúlla boltanum á milli sín í fyrri hálfleik og pressa KA-manna var afleit. Þeir áttu í vandræðum með að loka svæðinu milli varnar og miðju, voru veikir fyrir boltum inn fyrir vörnina og réðu illa við kantspil Breiðabliks. Almarr Ormarsson og Iosu Villar Vidal áttu erfitt uppdráttar á miðjunni sem og kantmennirnir Andri Fannar Stefánsson og Alexander Groven. Haukur Heiðar Hauksson var síðan í vandræðum allan leikinn. Staðsetningar hans voru slæmar og hann hreyfir sig eins og hann sé a.m.k. tíu árum eldri en hann er. Jajalo átti heldur enga draumainnkomu í mark KA.Hvað gerist næst? Næstu tveir leikir Breiðabliks eru á útivelli. Á sunnudaginn fara Blikar upp á Akranes og mæta þar ísköldum Skagamönnum sem hafa aðeins unnið einn af síðustu tíu leikjum sínum. Fimmtudaginn 15. ágúst mætir Breiðablik svo Víkingi R. í Víkinni í undanúrslitum Mjólkurbikarsins. KA fær Stjörnuna í heimsókn á sunnudaginn. KA-menn fara svo til Vestmannaeyja og mæta þar ÍBV sunnudaginn 18. ágúst.Ágústi var létt eftir fyrsta sigur Breiðabliks síðan 22. júní.vísir/daníelÁgúst: Hefði líka verið sáttur með að vinna 1-0 „Við erum gríðarlega ánægðir eftir sigurinn í kvöld. Þetta var flottur leikur af okkar hálfu. Maður er farinn að brosa aftur og allt liðið. Það skemmtilegasta við þetta er að vinna leiki. Það er langt síðan það gerðist síðast þannig að ég er mjög sáttur,“ sagði kampakátur Ágúst Gylfason, þjálfari Breiðabliks, eftir 4-0 sigurinn á KA í kvöld. Blikar höfðu beðið í 46 daga eftir sigri og stigin þrjú voru því afar kærkominn. „Þetta small í dag og við höfðum trú á verkefninu. Við vorum komnir upp við vegg en unnum góðan sigur og skoruðum frábær mörk,“ sagði Ágúst. „Við höfum leitað lengi að þessum sigri og það hlaut að koma að þessu. Sigurinn var stór en ég hefði líka verið sáttur með að vinna 1-0.“ Ágúst hrósaði Alfons Sampsted í hástert en hann lék sinn fyrsta leik fyrir Breiðablik eftir komuna frá Norrköping í Svíþjóð. „Hann var frábær. Þetta er svo frábær karakter og hann kemur með gleði inn í hópinn,“ sagði Ágúst. „Ég er gríðarlega sáttur með liðið mitt og áhorfendur. Þeir voru flottir í dag. Samstaðan var mikil og sigurinn góður.“Óli Stefán vildi fá meira og betra framlag frá sínum mönnum í kvöld.vísir/báraÓli Stefán: Þurfum að slá hvorn annan fast í andlitið Óli Stefán Flóventsson, þjálfari KA, var langt frá því að vera sáttur með frammistöðu sinna manna gegn Breiðabliki í kvöld. „Ég er gríðarlega svekktur og óánægður með hvernig mínir menn mættu til leiks. Það kom mér svolítið á óvart, miðað við hvernig undirbúningurinn var, að það hafi ekki staðið steinn yfir steini í neinu sem við gerðum,“ sagði Óli Stefán eftir leik. „Ég hef oft sagt við þessa stráka að þeir séu góðir í fótbolta. Það er engin spurning. En þegar hugarfarið er ekki rétt og þú vinnur ekki grunnvinnuna verður þetta erfitt. Það vantaði allan vilja og við gerðum þetta nokkuð þægilegt fyrir Blika. Ég tek samt ekkert af þeim. Þeir voru mjög flottir í leiknum.“ KA var 2-0 undir í hálfleik. Óli Stefán segist hvaða hvatt sína menn til að færa sig framar í seinni hálfleik. Þeir gerðu það en sóknir KA voru frekar máttlitlar. „Við ákváðum að fara framar og standa nær þeim. Í fyrri hálfleik settum við enga pressu á þá og þeir gátu gert það sem þeir vildu. En þegar líða tók á seinni hálfleik fannst mér við gera þeim erfiðara fyrir. Ég breytti líka um leikaðferð, fór í fjögurra manna vörn, og þá fannst mér við ógna þeim. Það hefði breytt miklu ef við hefðum minnkað muninn í 2-1 en í staðinn skoruðu þeir þriðja markið,“ sagði Óli Stefán. Hann vonast til að lægðin verði ekki djúp og hans menn nái sér fljótt á strik á ný. „Þetta eru þrjú töpuð stig. Við töpuðum illa í kvöld og vorum ekki góðir. En sem betur fer er stutt í næsta leik þar sem við getum gírað okkar upp og svarað fyrir okkur. Við þurfum að slá hvorn annan svolítið fast í andlitið núna og sjá til þess að við vinnum grunnvinnuna í næsta leik,“ sagði Óli Stefán. Aron Dagur Birnuson, markvörður KA, fór meiddur af velli eftir að Breiðablik komst í 1-0. Hann lenti í samstuði og var illa haldinn. „Staðan er held ég ekki góð. Hann er uppi á sjúkrahúsi í myndatöku. Þetta leit ekkert sérstaklega vel út,“ sagði Óli Stefán. „Hann fékk högg á lærið sem bólgnaði snöggt og mikið upp. Þetta var ekki gott. Við verðum bara að sjá hver staðan er á honum.“ Pepsi Max-deild karla
Eftir 46 daga án sigurs vann Breiðablik KA, 4-0, á Kópavogsvelli í 15. umferð Pepsi Max-deild karla í kvöld. Sigur Blika var afar sannfærandi og varla veikan blett á þeirra liði að finna í kvöld. Á 21. mínútu kom Thomas Mikkelsen heimamönnum yfir þegar hann batt endahnútinn á frábæra sókn upp vinstri kantinn. Davíð Ingvarsson átti fasta fyrirgjöf meðfram jörðinni og Mikkelsen kom boltanum yfir marklínuna. Ekki nóg með að KA fengi á sig mark heldur þurfti markvörðurinn Aron Dagur Birnuson að fara af velli vegna meiðsla eftir markið. Kristijan Jajalo kom inn á í hans stað. Á 36. mínútu skoraði Alexander Helgi Sigurðarson annað mark Breiðabliks með frábæru skoti beint úr aukaspyrnu í stöng og inn. Staðan var 2-0 í hálfleik, Blikum í vil. KA-menn sýndu meiri sóknarhug í seinni hálfleik en ógnuðu marki Blika aldrei að neinu ráði. Ásgeir Sigurgeirsson komst næst því að skora á 54. mínútu en skot hans fór framhjá. Þrátt fyrir að KA væri meira með boltann lengst af í seinni hálfleik var Breiðablik alltaf hættulegri. Mikkelsen fékk þrjú góð færi áður en hann skoraði annað mark sitt á 80. mínútu. KA-menn töpuðu boltanum klaufalega eftir innkast, Guðjón Pétur Lýðsson átti fullkomna sendingu á Mikkelsen sem skoraði af öryggi, annað mark sitt í leiknum og það áttunda í sumar. Hann er næstmarkahæstur í deildinni á eftir Stjörnumanninum Hilmari Árna Halldórssyni. Þegar þrjár mínútur voru til leiksloka skoraði Brynjólfur Darri Willumsson fjórða mark Blika eftir sendingu frá Alfons Sampsted. Þetta var jafnframt fyrsta mark Brynjólfs Darra í efstu deild. Lokatölur 4-0, Breiðabliki í vil. Blikar eru áfram í 2. sæti deildarinnar og KA-menn í því ellefta og næstneðsta.Gunnleifur Gunnleifsson, fyrirliði og markvörður Breiðabliks, fagnar.vísir/daníelAf hverju vann Breiðablik? Það var ekki að sjá á Blikum að þeir hefðu ekki unnið leik síðan 22. júní. Þeir stjórnuðu leiknum allan tímann, hvort sem þeir voru með boltann eða ekki, og það var mikið öryggi yfir leik þeirra grænu. Í fyrri hálfleik héldu þeir boltanum vel og fengu líka allan þann tíma og allt það pláss sem þeir þurftu til þess. Blikar skoruðu tvö lagleg mörk og staða þeirra í hálfleik var góð. Í seinni hálfleik færðu KA-menn sig framar og sóttu af veikum mætti. Vörn Blika var þétt fyrir og þrátt fyrir að vera minna með boltann fengu heimamenn öll hættulegustu færin í seinni hálfleik. Þeir bættu tveimur mörkum við og þau hefðu getað orðið fleiri.Hverjir stóðu upp úr? Mikkelsen var beittur í framlínu Blika og skoraði tvö góð mörk. Guðjón Pétur var frábær á miðjunni og Alexander Helgi var mjög góður, sérstaklega í fyrri hálfleik. Davíð Ingvarsson lék vel í stöðu vinstri bakvarðar og lagði fyrsta mark Blika upp. Alfons stóð fyrir sínu í fyrsta leiknum fyrir Breiðablik eftir komuna frá Norrköping og lagði upp mark. Viktor Örn Margeirsson var vel á verði í miðri vörn Blika og Gunnleifur Gunnleifsson var afar öruggur í markinu. Hallgrímur Mar Steingrímsson reyndi og reyndi í liði KA en fátt gekk upp hjá honum. Þá fékk hann enga hjálp frá samherjum sínum.Hvað gekk illa? Eins og áður sagði fengu Blikar næði til að rúlla boltanum á milli sín í fyrri hálfleik og pressa KA-manna var afleit. Þeir áttu í vandræðum með að loka svæðinu milli varnar og miðju, voru veikir fyrir boltum inn fyrir vörnina og réðu illa við kantspil Breiðabliks. Almarr Ormarsson og Iosu Villar Vidal áttu erfitt uppdráttar á miðjunni sem og kantmennirnir Andri Fannar Stefánsson og Alexander Groven. Haukur Heiðar Hauksson var síðan í vandræðum allan leikinn. Staðsetningar hans voru slæmar og hann hreyfir sig eins og hann sé a.m.k. tíu árum eldri en hann er. Jajalo átti heldur enga draumainnkomu í mark KA.Hvað gerist næst? Næstu tveir leikir Breiðabliks eru á útivelli. Á sunnudaginn fara Blikar upp á Akranes og mæta þar ísköldum Skagamönnum sem hafa aðeins unnið einn af síðustu tíu leikjum sínum. Fimmtudaginn 15. ágúst mætir Breiðablik svo Víkingi R. í Víkinni í undanúrslitum Mjólkurbikarsins. KA fær Stjörnuna í heimsókn á sunnudaginn. KA-menn fara svo til Vestmannaeyja og mæta þar ÍBV sunnudaginn 18. ágúst.Ágústi var létt eftir fyrsta sigur Breiðabliks síðan 22. júní.vísir/daníelÁgúst: Hefði líka verið sáttur með að vinna 1-0 „Við erum gríðarlega ánægðir eftir sigurinn í kvöld. Þetta var flottur leikur af okkar hálfu. Maður er farinn að brosa aftur og allt liðið. Það skemmtilegasta við þetta er að vinna leiki. Það er langt síðan það gerðist síðast þannig að ég er mjög sáttur,“ sagði kampakátur Ágúst Gylfason, þjálfari Breiðabliks, eftir 4-0 sigurinn á KA í kvöld. Blikar höfðu beðið í 46 daga eftir sigri og stigin þrjú voru því afar kærkominn. „Þetta small í dag og við höfðum trú á verkefninu. Við vorum komnir upp við vegg en unnum góðan sigur og skoruðum frábær mörk,“ sagði Ágúst. „Við höfum leitað lengi að þessum sigri og það hlaut að koma að þessu. Sigurinn var stór en ég hefði líka verið sáttur með að vinna 1-0.“ Ágúst hrósaði Alfons Sampsted í hástert en hann lék sinn fyrsta leik fyrir Breiðablik eftir komuna frá Norrköping í Svíþjóð. „Hann var frábær. Þetta er svo frábær karakter og hann kemur með gleði inn í hópinn,“ sagði Ágúst. „Ég er gríðarlega sáttur með liðið mitt og áhorfendur. Þeir voru flottir í dag. Samstaðan var mikil og sigurinn góður.“Óli Stefán vildi fá meira og betra framlag frá sínum mönnum í kvöld.vísir/báraÓli Stefán: Þurfum að slá hvorn annan fast í andlitið Óli Stefán Flóventsson, þjálfari KA, var langt frá því að vera sáttur með frammistöðu sinna manna gegn Breiðabliki í kvöld. „Ég er gríðarlega svekktur og óánægður með hvernig mínir menn mættu til leiks. Það kom mér svolítið á óvart, miðað við hvernig undirbúningurinn var, að það hafi ekki staðið steinn yfir steini í neinu sem við gerðum,“ sagði Óli Stefán eftir leik. „Ég hef oft sagt við þessa stráka að þeir séu góðir í fótbolta. Það er engin spurning. En þegar hugarfarið er ekki rétt og þú vinnur ekki grunnvinnuna verður þetta erfitt. Það vantaði allan vilja og við gerðum þetta nokkuð þægilegt fyrir Blika. Ég tek samt ekkert af þeim. Þeir voru mjög flottir í leiknum.“ KA var 2-0 undir í hálfleik. Óli Stefán segist hvaða hvatt sína menn til að færa sig framar í seinni hálfleik. Þeir gerðu það en sóknir KA voru frekar máttlitlar. „Við ákváðum að fara framar og standa nær þeim. Í fyrri hálfleik settum við enga pressu á þá og þeir gátu gert það sem þeir vildu. En þegar líða tók á seinni hálfleik fannst mér við gera þeim erfiðara fyrir. Ég breytti líka um leikaðferð, fór í fjögurra manna vörn, og þá fannst mér við ógna þeim. Það hefði breytt miklu ef við hefðum minnkað muninn í 2-1 en í staðinn skoruðu þeir þriðja markið,“ sagði Óli Stefán. Hann vonast til að lægðin verði ekki djúp og hans menn nái sér fljótt á strik á ný. „Þetta eru þrjú töpuð stig. Við töpuðum illa í kvöld og vorum ekki góðir. En sem betur fer er stutt í næsta leik þar sem við getum gírað okkar upp og svarað fyrir okkur. Við þurfum að slá hvorn annan svolítið fast í andlitið núna og sjá til þess að við vinnum grunnvinnuna í næsta leik,“ sagði Óli Stefán. Aron Dagur Birnuson, markvörður KA, fór meiddur af velli eftir að Breiðablik komst í 1-0. Hann lenti í samstuði og var illa haldinn. „Staðan er held ég ekki góð. Hann er uppi á sjúkrahúsi í myndatöku. Þetta leit ekkert sérstaklega vel út,“ sagði Óli Stefán. „Hann fékk högg á lærið sem bólgnaði snöggt og mikið upp. Þetta var ekki gott. Við verðum bara að sjá hver staðan er á honum.“
Uppgjörið: Ísland - Ítalía 71-95 | Afleitur fyrri hálfleikur gerði Íslandi erfitt fyrir Körfubolti
Uppgjörið: Ísland - Ítalía 71-95 | Afleitur fyrri hálfleikur gerði Íslandi erfitt fyrir Körfubolti