Eldur kom upp í endurvinnslugámi við Hlemm á tólfta tímanum í morgun. Farþegi í Strætó við Hlemm heyrði afar háan hvell og í framhaldinu sá hún þrjá lögreglumenn stökkva út af lögreglustöðinni við Hverfisgötu til að athuga hvað hefði gerst.
Jóhann Karl Þórisson, yfirlögregluþjónn á höfuðborgarsvæðinu, segir í samtali við Vísi að hvellurinn hafi heyrst vel inn á stöð. Menn hafi talið að verið væri að sprengja fyrir einhverjum grunni en farið og kannað málið.
Eldur hafi logað í umræddum gámi en hann reyndist minniháttar. Slökktu lögreglumennirnir eldinn með slökkvitæki. Jóhann Karl segist að bjórkútur úr plasti hafi sprungið í gámnum. Um sé að ræða einnota bjórkúta sem kæla þurfi eftir notkun áður en þeir séu settir í plastgám.
Engin slys urðu á fólki.
Bjórkútur sprakk með hvelli við Hlemm
Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
