Körfubolti

Þóra Kristín: Þetta er geðveikt

Helgi Hrafn Ólafsson skrifar
Þóra í leik með Haukum.
Þóra í leik með Haukum. vísir/getty

Þóra Kristín Jónsdóttir var heldur betur sátt við sigur Haukastúlkna í kvöld á Íslandsmeisturum Vals, 74-69. Hún átti meðal annars skemmtilega fléttu á lokasprettinum þar sem að hún varði sniðskot Sylvíu Rúnar hjá Val sem hefði komið Völsurum í höggfæri að vinna leikinn.

„Þetta var frekar lélegt, sko. Ég missti boltann en náði einhvern veginn að komast fyrir hana og slapp við villuna,“ sagði Þóra um varða skotið, en hún tapaði einmitt boltanum en náði að elta uppi Sylvíu Rún og verja skotið.

Sókn Hauka var ekki jafn beitt og vörnin og Þóra var meðvituð um það eftir leikinn. „Sóknin hefur verið stirð allt tímabilið en það var vörnin í dag sem skilaði þessu,“ sagði hún. Skotnýting Vals var einmit frekar slæm í kvöld, aðeins 33% yfir heildina.

Kiana Johnson reyndi sitt besta til að taka yfir í lok leiks en það gekk ekki sem skyldi, enda höfðu Haukar lagt upp með að loka á hana í leiknum. „Við settum upp og reyndum svolítið að loka á Kiönu þannig að hún þurfti að losa sig við boltann. Það gekk ágætlega og það skilaði þessum sigri,“ sagði Þóra um áætlun liðsins til að vinna Val.

Þá fara bæði lið í jólafrí og Þóra Kristín er væntanlega sátt með jólagjöfina í ár. „Já, þetta er geðveikt!“ segir hún og brosir kampakát eftir góðan sigur á Val.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×