Stuðningsmaður Utah Jazz sem var sendur í ævilangt bann frá íþróttahöll félagsins hefur ákveðið að lögsækja bæði Utah Jazz og NBA-leikmanninn Russell Westbrook.
Atvikið gerðist á NBA leik í mars og stuðningsmaðurinn var sakaður um að hafa verið með kynþáttaníð gagnvart Russell Westbrook.
Utah Jazz sýndi honum enga miskunn og dæmdi hann í ævilangt bann frá leikjum félagsins.
Stuðningsmaðurinn telur hins vegar á sér brotið og ætlar með málið fyrir dómara.
Jazz fan banned for life for taunting Russell Westbrook turns around and sues for $100Mhttps://t.co/sgra6hw1KKpic.twitter.com/zk28KTEM12
— NY Daily News Sports (@NYDNSports) December 17, 2019
Maðurinn er 45 ára gamall og heitir Shane Keisel. Hann vill nú ekki bara afsökunarbeiðni heldur einnig bætur fyrir sig og kærustu sína upp á heilar hundrað milljónir dollara eða um tólf milljarða íslenskra króna.
Shane Keisel segist hafa misst vinnuna vegna þessa máls og að hann hafi einnig mátt þola hótanir á netinu.
Shane Keisel segist vissulega hafa verið að kalla á Russell Westbrook en að þar hafi ekki verið um neina kynþáttafordóma að ræða.
Keisel sakaði Westbrook um að hóta kærustu sinni sem var með honum á leiknum. Westbrook fékk 25 þúsund dollara sekt fyrir að hafa kallað „I’ll f--k you up“ til Keisel og kærustu hans.
Russell Westbrook var þarna leikmaður Oklahoma City Thunder en hann leikur nú með Houston Rockets.