Átta bandarísk systkini voru skírð í Hallgrímskirkju í dag. Sóknarprestur kirkjunnar segir það færast í aukana að erlendir ferðamenn leiti til kirkjunnar vegna ýmissa athafna, svo sem skírna og brúðkaupa.
Systkinin átta sem voru skírð í Hallgrímskirkju í dag komu sértaklega til landsins vegna athafnarinnar. Elstu systkinin fjögur eru fjórburar sem eiga 16 ára afmæli í dag. Fimmta barnið er 14 ára og þau síðustu tvö eru tíu ára tvíburarar. Hjónin eiga þrjú yngri til viðbótar sem komu ekki með til Íslands að þessu sinni.
Hallgrímskirkja heilagur staður
Séra Sigurður Árni Þórðarson, prestur í Hallgrímskirkju, segir að foreldrarnir og elsti drengurinn hafi komið til Íslands fyrir 13 árum. Strákurinn var þá fjögurra ára og hafði glímt við veikindi.
„Hann kom inn í kirkjuna, settist niður, fullkomlega rólegur. Þau höfðu aldrei séð þetta í lífi þessa drengs og hann upplifið eitthvað sem varð til þess að líf hans breyttist til hins góða. Fólkið túlkar þetta sem einhvers konar kraftaverk og þetta er svona heilagur staður fyrir þeim.“
Rúmlega milljón ferðamenn á ári
Séra Sigurður Árni segir að um 1,2 milljónir ferðamanna heimsæki Hallgrímskirkju á ári. Fjórðungur þeirra fer í skoðunarferð upp í turn kirkjunnar. Margir leita til kirkjunnar vegna athafna eins og skírna og brúðkaupa. Þá eykst að ferðamenn óska eftir blessunarathöfnum.