Innlent

Búið að ráða niðurlögum eldsins í álverinu í Straumsvík

Eiður Þór Árnason og Sylvía Hall skrifa
Mikill reykur sást stíga upp við álverið í kvöld.
Mikill reykur sást stíga upp við álverið í kvöld. Mynd/Jóhann K.
Eldur kom upp í álveri RioTinto í Straumsvík í kvöld og var slökkvilið og sjúkrabílar sendir á vettvang á níunda tímanum. Vel gekk að ná niðurlögum eldsins. Ekki hafa fengist nákvæmar upplýsingar um hver eldsupptök voru en samkvæmt upplýsingum frá slökkviliðinu á höfuðborgarsvæðinu komst eldur í útvegg og logaði eldurinn að mestu utandyra.

Að sögn Bjarna Más Gylfasonar, upplýsingafulltrúa RioTinto, kviknaði eldurinn utandyra á milli skála og gekk vel að slökkva eldinn. Bjarni segir að ekki hafi verið um að ræða eld í útvegg líkt og skilja mátti af upplýsingum frá slökkviliði. Kolsvartur reykur sást stíga frá álverinu en Bjarni taldi líklegt að kviknað hafi í plaströrum sem hafi skýrt lit reyksins og lykt. Að öllum líkindum væri um að ræða óverulegt tjón.

Samkvæmt fréttamanni fréttastofu Stöðvar 2 og Vísis var enginn reykur lengur til staðar um klukkan hálf ellefu í kvöld en lögregla og slökkvilið voru þá enn á svæðinu.

Bjarni Már, upplýsingafulltrúi RioTinto, hafnar því alfarið í samtali við fréttastofu að sprengingar af einhverju tagi hafi átt sér stað í tengslum við eldinn líkt og greint hefur verið frá í öðrum miðlum.

Fréttin var síðast uppfærð klukkan 23:30.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×