Erlent

Trump segir bandarískum þingkonum að fara aftur „til síns heima“

Vésteinn Örn Pétursson skrifar
Eitthvað virðast þingkonurnar fjórar fara í taugarnar á Trump. Hann vill helst sjá þær yfirgefa Bandaríkin.
Eitthvað virðast þingkonurnar fjórar fara í taugarnar á Trump. Hann vill helst sjá þær yfirgefa Bandaríkin. Vísir/Getty
Donald Trump Bandaríkjaforseti birti í dag röð tísta þar sem hann gerði nýlega kjörnar þingkonur Demókrataflokksins að umfjöllunarefni sínu. Benti hann þingkonunum á að snúa aftur til sinna upprunalanda í stað þess að vera að vasast í stjórnarháttum Bandaríkjanna. Þrjár af fjórum þeirra eru þó fæddar í Bandaríkjunum.





Leiða má sterkar líkur að því að þingkonurnar sem Trump á við séu þær Alexandria Ocasio-Cotez, Ayanna Pressley, Rashida Tlaib og Ilhan Omar. Trump virðist þó hafa hlaupið á sig, en allar eru þingkonurnar fæddar í Bandaríkjunum, nema sú síðastnefnda, sem fædd er í Sómalíu.

Í tístunum sagði Trump áhugavert að sjá konurnar, sem komi upprunalega frá öðrum löndum en Bandaríkjunum, sem er ekki rétt, reyna nú að segja Bandaríkjamönnum hátt og snjallt hvernig þeir eigi að haga stjórnarháttum sínum.





Stjórnmálasérfræðingar vestanhafs telja Trump með tístum sínum hafa stigið inn í deilur á milli þingkvennanna fjögurra og Nancy Pelosi, forseta fulltrúadeildar þingsins.

Hún hefur á síðustu dögum reynt að draga úr áhrifum Ocasio-Cortez á þinginu og innan Demókrataflokksins. Ocasio-Cortez hefur sakað Pelosi um að reyna að jaðarsetja konur sem eru dökkar á hörund.





Á föstudag kom Trump Pelosi óvænt til varnar þar sem hann sagði hana ekki vera fordómafulla í garð þeirra sem dökkir eru á hörund. En nú hefur Trump, eins og áður segir, snúið sér beint að þingkonunum, sem hann segist viss um að Nancy Pelosi væri meira en tilbúin að hjálpa til við að koma úr landi.

Demókratar hafa margir hverjir fordæmt ummæli forsetans og sakað hann um kynþáttafordóma, og ekki í fyrsta skipti. Til að mynda er það mörgum í fersku minni þegar Trump hélt því ítrekað fram að Barack Obama væri raunverulega fæddur utan Bandaríkjanna. Þá er vert að minnast þess þegar hann hóf kosningabaráttu sína árið 2015, en snemma í baráttunni sagði hann marga mexíkóska innflytjendur ótínda glæpamenn og nauðgara. Eins hefur hann velt upp þeirri spurningu hvers vegna Bandaríkin tækju við svo mörgum innflytjendum frá „skítaholum“ á borð við Haítí, El Salvador og nokkur Afríkulönd.

Demókratar eru þó ekki þeir einu sem fordæmt hafa ummæli forsetans, en þingmaðurinn Justin Amash, sem hingað til hefur setið á þingi fyrir Repúblikana, en virðist nú vera við það að yfirgefa flokkinn, hefur sagt ummæli Trump um þingkonurnar „rasísk og ógeðsleg.“

Eins og áður segir eru þrjár kvennanna fjögurra sem Trump hefur bent á að „snúa aftur til landanna hvaðan þær komu,“ fæddar í Bandaríkjunum. Sú fjórða hefur búið þar frá 12 ára aldri.

Tvær þingkvennanna sem um ræðir, Alexandria Ocasio-Cortez og Ilhan Omar. Sú síðarnefnda er fædd í Sómalíu en hefur búið í Bandaríkjunum frá 12 ára aldri.Vísir/Getty



Fleiri fréttir

Sjá meira


×