Málið er rakið í frétt RÚV. Þar kemur fram að auglýsingastofa á vegum Húsasmiðjunnar hafi óskað eftir því í fyrra að fá að nota hluta úr laginu Glow, sem Retro Stefson flytur og Unnsteinn samdi, í auglýsingaherferð. Samkomulag hafi ekki náðst um málið og Retro Stefson hafi því ekki gefið leyfi fyrir notkun lagsins.
Herferðin hófst innan við mánuði síðar. Í henni var notuð tónlist sem Unnsteinn telur að sé bæði brot á höfundarrétti sínum og óheimil notkun á hugverki, að því er segir í frétt RÚV.
Unnsteinn hefur því nú höfðað mál gegn Húsasmiðjunni og krefst þess að fá greiddar bætur. Málið var tekið fyrir í Héraðsdómi Reykjavíkur í gær.
Haft er eftir Smára Hilmarssyni lögmanni Húsasmiðjunnar í frétt RÚV að forsendur kröfunnar séu mjög hæpnar. Tónlistarmenn á vegum Húsasmiðjunnar hafi jafnframt verið fengnir til að greina líkindin og sagt þau ekki til staðar.
Hér að neðan mátti sjá eina auglýsingu Húsasmiðjunnar úr herferðinni og hluta úr umræddu lagi. Húsasmiðjan hefur nú tekið auglýsinguna úr birtingu.
Retro Stefson var um árabil ein vinsælasta hljómsveit landsins og umrætt lag, Glow, er eitt vinsælasta lag sveitarinnar. Retro Stefson lagði upp laupana árið 2016 en Unnsteinn, svo og aðrir meðlimir sveitarinnar, hefur verið nokkuð virkur í íslenskri tónlistarsenu síðan.