Á síðunni kemur fram að um sé að ræða þriðju mótmælin sem boðað er til á einum mánuði. Flóttamenn hafi krafist þess að íslensk stjórnvöld gangi til fundar við þá en ekki fengið nein viðbrögð.
„Á meðan er fólki vísað nauðugu úr landi í hverri viku, okkur er haldið í einangrun þangað til við sökkvum í þunglyndi og örvæntingu sem fær of marga til að fremja sjálfsvíg og sjálfsskaða.“

Mótmælendurnir í dag hrópuðu slagorð á borð við „enginn maður er ólöglegur“ og munduðu mótmælaborða. „Fólk er pirrað, við erum með sjálfsvígshugsanir, hjálpið okkur núna, líf okkar eru í húfi!“ var m.a. ritað á einn þeirra.
Þá sýna myndir frá vettvangi að lögregla hélt úti töluverðum viðbúnaði vegna mótmælanna.
Greint var frá því um helgina að hælisleitandi sem dvalið hefur að Ásbrú hafi verið fluttur á sjúkrahús eftir sjálfsvígstilraun. Þá var sagt frá annarri sjálfsvígstilraun hælisleitanda að Ásbrú á Facebook-síðu Refugees in Iceland í gær en lögreglan á Suðurnesjum vildi ekki tjá sig um málið þegar Fréttablaðið leitaði eftir því.
