Ajax sló út Evrópumeistarana

Ástrós Ýr Eggertsdóttir skrifar
Þetta átti að verða nokkuð þægilegt kvöld fyrir Real
Þetta átti að verða nokkuð þægilegt kvöld fyrir Real vísir/getty
Ajax sló út ríkjandi Evrópumeistara Real Madrid í ótrúlegum leik á Santiago Bernabeu í Meistaradeild Evrópu.

Fyrir leikinn var Real í nokkuð þægilegri stöðu með 2-1 sigur úr fyrri leiknum og tvö útivallarmörk.

Heimamenn voru með mikla yfirburði á upphafsmínútunum en gestirnir skoruðu í skyndisókn eftir sjö mínútur. Dusan Tadic átti góðan sprett og fann Hakim Ziyech í teignum.

Tadic var svo aftur á ferðinni rúmum tíu mínútum síðar, í þetta skiptið bætti hann við glæsilegum snúning inn í sprettinn sinn og sendi boltann svo inn á David Neres sem kom Ajax í 2-0 og yfir í einvíginu.

Þriðja skyndisóknin kom stuttu seinna en þá hitti Neres ekki á markið og staðan var 2-0 í leiknum í hálfleik.

Á 62. mínútu leiksins var svo komið að Tadic að kóróna frábæran leik sinn með glæsilegu marki úr skoti við vítateigslínuna. Það tók þó sinn tíma fyrir dómarann að staðfesta markið, en myndbandsdómarinn var ekki viss hvort boltinn hefði farið út fyrir hliðarlínu í uppbyggingu marksins.

Eftir langt samtal dómaranna var ákveðið að láta markið standa. Rothögg fyrir Real.

Marco Asensio virtist hafa gefið heimamönnum örlitla von þegar hann skoraði með góðu, hnitmiðuðu skoti á 70. mínútu en tveimur mínútum síðar skoraði Lasse Schöne fyrir Ajax.

Markið var beint úr aukaspyrnu, vinstra megin við vítateiginn í fullkominni fyrirgjafarstöðu nema hvað að fyrirgjöfin var svo góð að hún small í fjærhorninu.

Real þurfti því að skora þrjú mörk á tuttugu mínútum, vissulega vel hægt en varð þó ekki. Lokastaðan 1-4 og samanlagt 3-5 í einvíginu og Evrópumeistararnir úr leik.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira