Undirbúningur framkvæmda við Hús íslenskunnar er hafinn og er áætlað að byggingaframkvæmdir hefjist formlega um miðjan ágúst.
Þetta kemur fram á vef Framkvæmdasýslu ríkisins en þar segir að fyrsti verkfundur vegna Húss íslenskunnar hafi farið fram í vikunni. Áætlað er að byggingu hússins ljúki á árinu 2023.
Húsið mun standa við Arngrímsgötu 5 í Vesturbæ Reykjavíkur. Lögð verður áhersla á það á næstu vikum að búa til verkstað í hæsta gæðaflokki á sama tíma og framkvæmdirnar verða skipulagðar.
„Í húsinu verða helstu dýrgripir íslenskrar menningar varðveittir til allrar framtíðar, auk þess sem kennsla og rannsóknir í íslensku munu fara þar fram. Árnastofnun og Háskóli Íslands munu hafa aðsetur í húsinu.
Ístak er aðalverktaki framkvæmdanna, en húsið er byggt samkvæmt endurskoðaðri teikningu arkitektastofunnar Hornsteina,“ segir á vef Framkvæmdasýslu ríkisins.

