Fótbolti

„Hefði breytt öllu ef við hefðum skorað“

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Sigurbjörn og Ólafur Jóhannesson hafa stýrt Val undanfarin fimm ár.
Sigurbjörn og Ólafur Jóhannesson hafa stýrt Val undanfarin fimm ár. vísir/vilhelm
Sigurbjörn Hreiðarsson, aðstoðarþjálfari Vals, segir að það hefði verið áhugavert að sjá hvernig leikur liðsins gegn Ludogorets í kvöld hefði þróast ef Valsmenn hefðu nýtt þau tækifæri sem þeir fengu í byrjun leiks.

Patrick Pedersen og Eiður Aron Sigurbjörnsson fengu úrvals færi sem ekki nýttust áður en Ludogorets komst yfir á 7. mínútu. Búlgörsku meistararnir voru 2-0 yfir í hálfleik, bættu svo tveimur mörkum við undir lokin og unnu 4-0 sigur og einvígið, 5-1 samanlagt.

„Það hefði breytt öllu ef við hefðum skorað úr öðru hvoru færinu í upphafi leiks. Við fengum líka færi í seinni hálfleik til að minnka muninn í 2-1. Þá hefði kannski komið smá skjálfti í þá. Við fengum fjögur klassafæri í leiknum,“ sagði Sigurbjörn í samtali við Vísi.

En kom það honum á óvart hversu mörg góð færi Valur fékk í leiknum?

„Við vissum að það væru möguleikar á móti þeim. Við komumst í færin en nýttum þau ekki.“

Þrátt fyrir góð færi var róður Vals þungur, enda andstæðingurinn gríðarlega sterkur. Sóknarleikur Búlgaríumeistaranna var beittur og Valsmenn áttu í miklum vandræðum með kantspil þeirra.

„Þetta er hörkulið. Þeir eru með þannig leikmannahóp að þeir geta nánast skipt um lið milli deildar- og Evrópukeppni. Þeir eru með mjög hraða og öfluga leikmenn,“ sagði Sigurbjörn.

Hannes Þór Halldórsson fór meiddur af velli í hálfleik og Lasse Petry í seinni hálfleik. Sigurbjörn kvaðst ekki vita nákvæmlega hvernig staðan á þeim væri.

„Þetta var hnjask en þeir bera sig báðir ágætlega,“ sagði hann að lokum.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×