Skoðun

Litrík Mullers-æfing

Þórarinn Þórarinsson skrifar
Þótt fólk sé alls konar, hinsegin og jafnvel líka svona, erum við í eðli okkar hvorki góð né ill. Hins vegar er fólk annaðhvort leiðinlegt eða skemmtilegt. Þau skemmtilegu ætla að fagna fjölbreytileikanum og þá óhjákvæmilega lífinu um leið í skrúðgöngu á morgun.

Þar sem andlegur þroski er ekki frekar en vitið í askana látinn er sú gleðiganga eitur í beinum sorglega margra sem þjakaðir af andlegum næringarskorti naga þá sturluðu ranghugmynd að allir eigi að vera eins. Og það sem verra er, nákvæmlega eins og þeir.

Þetta fólk er ekki endilega illt en leiðinlegt er það. Þau eru bara „svona“ í stjórnlausum ótta við allt „hinsegin“ með þráhyggjukennda þörf fyrir að skipta sér af því hvernig annað fólk er og kýs að lifa lífinu. Sauðirnir í þessu leiðindafé eru eðli málsins samkvæmt ekki allir nákvæmlega eins en rúmast þó allir undir einföldu regnhlífarhugtaki, svokölluðu  „Mullers-heilkenni“ með vísan til útskýringaglaða og ímyndaða forystuhrútsins Baldurs Muller.

Meininu fylgir meðal annars að finnast transfólk vera „djöfulsyns viðbjóður“. Ágætt en dapurlegt og handahófskennt dæmi um að þessum rolum og rollum er fyrst og fremst vorkunn. Mikið óskaplega hlýtur þeim að líða illa á sálinni sem mega ekkert sjá sem er öðruvísi án þess að æla svartagalli.

Góðu heilli má slá á heilkennið og jafnvel finna smá gleði í hjarta með einfaldri Mullers-æfingu. Prufa bara að kyngja ælunni, kasta af sér sauðskinnsskónum, dressa sig upp í eitthvað annað en mórautt og skella sér í gönguna. Þar er ekkert að óttast vegna þess að ólíkt samkynhneigð og alls konar öðruvísi kynvitund eru gleðin og hamingjan smitandi.




Skoðun

Skoðun

Kona, vertu ekki fyrir!

Elín Björg Jónsdóttir,Halldóra Sigríður Sveinsdóttir,Hrafnhildur Lilja Harðardóttir skrifar

Sjá meira


×