Theresa May, forsætisráðherra Bretlands, hefur verið hvött af samflokksmönnum hennar að stíga til hliðar sem forsætisráðherra svo liðka megi fyrir Brexit-samningi.
Þetta hefur BBCeftir háttsettum meðlimum Íhaldsflokksins. Í frétt BBC segir að þingmenn flokksins sem mótfallnir séu þeim samningi sem May hefur komið með heim frá viðræðum við leiðtoga ESB geti sætt sig við að styðja nýjasta samning May, verði það klárt að hún muni ekki leiða næstu lotu samningaviðræða við ESB.
May hefur verið hvött til að stíga til hliðar eftir að hún gagnrýndi þingmenn fyrir að tefja Brexit, en nýverið fór hún fram á það við ESB að Brexit yrði frestað.
Donald Tusk, forseti leiðtogaráðs ESB, greindi frá því í vikunni að ESB hafi boðið Bretum að fresta útgöngunni frá 29. mars til 22. maí, svo fremi sem breska þingið samþykki útgöngusamninginn í næstu viku.
Samningi May um Brexit hefur ítrekað verið hafnað á breska þinginu og óljóst er hvort að hún muni leggja síðasta samning aftur fyrir þingið í bili, í það minnsta ekki fyrr en að hún geti tryggt stuðning við samninginn.
