Erlent

Skemmtiferðaskipið komið að landi í Noregi

Vésteinn Örn Pétursson skrifar
Mikill viðbúnaður var vegna komu skipsins til Molde.
Mikill viðbúnaður var vegna komu skipsins til Molde. Svein Ove Ekornesvag/AP
Norska skemmtiferðaskipið Viking Sky, sem var nálægt því að stranda við strendur Noregs í gær, lagði að bryggju í höfninni í Molde í Noregi á fjórða tímanum í dag.

Upphaflega voru um þrettán hundruð farþegar um borð í skipinu en unnið var að því í gær að flytja þá, einn í einu, úr skipinu með hjálp sigkapla og þyrlna. Tæplega níu hundruð manns voru um borð í skipinu þegar það kom til hafnar í Molde í dag.

Skipið sigldi til hafnar í fylgd tveggja dráttarbáta, en ástæða þess að skipið komst í hann krappan á hafi úti var bilun í vél þess.

Mikill viðbúnaður var við höfnina þegar skipið lagðist að bryggju og þurfti lögregla að biðja almenning um að halda sig frá svæðinu.

Samkvæmt fjölmiðlum í Noregi eru þrír farþega skipsins alvarlega slasaðir en þar af er einn talinn í lífshættu.

Þá verður verslunarmiðstöð í Molde opnuð sérstaklega fyrir farþega skipsins þar sem þeir geta keypt sér ýmsar nauðsynjavörur sem þá kann að vanta eftir hrakningarnar. Fyrirtækið sem gerir út skipið hefur einnig útvegað hverjum farþega 2.500 norskum krónum hverjum, rúmum 35 þúsund íslenskum.


Tengdar fréttir

Var 100 metrum frá því að stranda

Búið er að flytja 338 af þeim 1.300 farþegum sem voru um borð í skemmtiferðaskipinu Viking Sky sem var nálægt því að stranda við strendur Noregs í gær.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×