„Við hjónin rekum verslun á Langholtsvegi í Reykjavík, BECO, og fengum mikið af gömlum ljósmyndavélum frá kúnnum sem vildu koma þeim í okkar vörslu, þannig að til varð mikið safn. Þegar við keyptum íbúð á Siglufirði og síðan gamalt hús vaknaði hugmyndin um að stofna ljósmyndasögusafn. Í þessu safni eru um 8.300 hlutir sem tengjast ljósmyndun, allt frá smástykkjum upp í stórar vélar,“ segir Baldvin.
Á neðri hæð safnsins má sjá ýmsa gamla muni sem tengjast ljósmyndagerð og vekja voldugar ljósmyndavélar einna mesta athygli. Þar er einnig ljósmyndasýning á myndum Vigfúsar Sigurgeirssonar frá Siglufirði, en sú sýning var opnuð um leið og safnið og hefur verið í gangi síðan. „Vigfús var mjög öflugur ljósmyndari í Reykjavík en kom fyrst hingað á Siglufjörð árið 1924 og myndaði síðan mannlífið í kringum síldina. Myndirnar á sýningunni eru frá árunum 1926-1954,“ segir Baldvin.

Hann segir aðsókn vera góða. „Siglfirðingar koma hingað og taka með sér gesti og aðsókn erlendra ferðamanna hefur aukist,“ segir hann.
Ekki er rukkað inn á safnið sem er opið alla daga í sumar frá eitt til fjögur.