Umfjöllun, viðtöl og einkunnir: HK - Breiðablik 2-2 | Blikar björguðu stigi

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Viktor Örn fagnar jöfnunarmarkinu.
Viktor Örn fagnar jöfnunarmarkinu. vísir/bára
Seigla Breiðabliks skilaði þeim á endanum stigi í Kópavogsslagnum í dag eftir að gestirnir lentu 2-0 undir í upphafi síðari hálfleiks. Lokatölur leiksins 2-2 eftir hreint út sagt ótrúlegar lokamínútur þar sem allt ætlaði um koll að keyra í leikslok.

Heimamenn í HK byrjuðu leikinn af miklu krafti en vantaði þó alltaf herslumuninn á að klára sóknirnar í fyrri hálfleik. Í upphafi þess síðari skoruðu heimamenn hins vegar tvívegis. Fyrst skoraði Ásgeir Marteinsson með góðu skoti fyrir utan teig og skömmu síðar tók Ásgeir hornspyrnu sem fór beint á ennið á Birni Berg Bryde og staðan orðin 2-0 heimamönnum í vil.

Eftir það lögðust heimamenn til baka og leyfðu Blikum að sækja en sóknir gestanna voru máttlausar með eindæmum. Á endanum báru háar sendingar Blika árangur þegar Alexander Helgi Sigurðarson skallaði knöttinn fyrir fætur Thomas Mikkelsen sem hamraði knöttinn á lofti í netið.

Í lok uppbótartíma átti varamaðurinn Kolbeinn Þórðarson frábæra fyrirgjöf á kollinn á Viktori Erni Margeirssyni sem jafnaði metin og þar við sat. Lokatölur 2-2 í Kópavogsslagnum.

Það var mikill hiti í mönnum undir lokin.vísir/bára
Af hverju varð jafntefli?

Einfaldlega því Blikar neituðu að gefast upp. Undir venjulegum kringumstæðum hefðu heimamenn átt að sigla stigunum þremur í hús en gestirnir neituðu að gefast upp og sóttu stig sem þeir áttu ekki skilið.

Hverjir stóðu upp úr?

Ásgeir Marteinsson var frábær á hægri vængnum hjá HK en hann skoraði eitt og lagði upp annað. Þá var Björn Berg Bryde sem klettur í vörn heimamanna ásamt því að skora seinna mark HK. Þeir Arnþór Ari Atlason og Ólafur Örn Eyjólfsson fóru einnig mikinn á miðju HK og hlupu úr sér lifur og lungu.

Hjá gestunum var lítið um fína drætti en Viktor Örn getur farið sáttur á koddann eftir að bjarga stigi fyrir gestina. Þá var Thomas Mikkelsen fínn sem fremsti maður en hann er með þetta víðfræga markanef.

Hvað gekk illa?

Sóknarleikur Blika gekk hörmulega nær allan venjulegan leiktíma leiksins. Vörn HK átti ekki í neinum vandræðum með þá fyrr en þreytan var farin að segja til sín. Á sama tíma virtust Blikar eiga meira inni og refsuðu þeir fyrir það.

Þá gekk Blikum illa að verjast fyrirgjöfum heimamanna en HK skoraði til að mynda eftir hornspyrnu í síðari hálfleik en í þeim fyrri þurfti Gunnleifur að taka á honum stóra sínum í marki Blika, einnig eftir hornspyrnu.

Hvað gerist næst?

Heimamenn í HK fara í Garðabæinn þar sem þeir mæta Stjörnunni á föstudaginn þann 10. maí. Degi síðar eða á laugardeginum 11. maí fá Blikar Víkinga í heimsókn.

Brynjar Björn var svekktur með úrslitin.vísir/bára
Brynjar Björn: „Erfitt að finna orð yfir þetta“

„Ég veit það ekki, það er erfitt að finna orð yfir þetta. Þetta var sárt, sérstaklega annað markið á síðustu sekúndu leiksins. Vorum búnir að spila hrikalega öflugan leik, fá fullt af færum og hefðum getað skorað þriðja markið sem hefði drepið leikinn alveg,“ sagði Brynjar Björn Gunnarsson, þjálfari HK, aðspurður hvort hann ætti einhver orð yfir leik dagsins.

Brynjar vildi ekki meina að hans menn hefði lagst of fljótt í skotgrafirnar eftir að hafa komist 2-0 yfir.

„Kannski ekkert of fljótt. Það er í lagi að verjast neðarlega, við vörðumst vel og þeir voru ekki að skapa nein færi, áttu eitt og eitt skot fyrir utan teiginn. Það var í sjálfu sér engin hætta. Það er mannlegt eðli að falla niður og verja sína stöðu en það endaði svona.“

Varðandi leikinn hjá sínum mönnum, þó svo að úrslitin hafi ekki fallið með þeim í dag þá var Brynjar nokkuð sáttur.

„Það er erfitt að segja eitthvað annað, við spiluðum vel, við vorum grimmir, við sóttum vel og vorum meira og minna á vallarhelmingi Blika í 70-80 mínútur.“

Ágúst var ekki sáttur með spilamennsku Blika.vísir/bára
Ágúst: Dældum háum boltann inn í teiginn

„Eigum við ekki að segja að við höfum fengið eitt stig, við hættum ekki, við höldum áfram. Við vorum eftir á í öllu allan leikinn og HK-menn voru hrikalega öflugur, komu vel gíraðir og ótrúlegt að ná stiginu hérna. Við áttum einfaldlega ekki roð í þá,“ sagði Ágúst Gylfason, þjálfari Breiðabliks, eftir jafnteflið við HK í dag.

Ágúst var sáttur með stigið en honum fannst hans menn þó ekki eiga það skilið en á endanum skiluðu háu boltar Blika tveimur mörkum.

„Miðað við 85 mínútur af leiknum áttum við ekkert skilið. Við dældum háum boltum inn í teiginn og þeir voru búnir að taka við því í 85 mínútur eins og ekkert væri. Sem betur fer fyrir okkur skorum við tvö flott mörk sem voru „direct“ sem er frekar óvanalegt fyrir Blika en það lukkaðist í dag,“ sagði Gústi enn fremur.

Varðandi ástæður þess af hverju Blikar voru jafn lengi að koma sér inn í leikinn og raun bar vitni þá stóð ekki á svörum hjá Ágústi. 

„Andstæðingurinn! Þeir komu gíraðir í þetta og við áttum lítinn séns í þá. Þetta var erfitt en eitt stig. Eins og ég segi, við áttum erfiðan dag því andstæðingurinn var góður,“ sagði hann að lokum.

Ásgeir skoraði og lagði upp í dag.vísir/bára
Ásgeir: Hrikalegt að missa þetta niður

„Það er voða lítið hægt að segja. Það er hrikalegt að missa þetta niður eftir mjög flottan leik öllu liðinu svo ég er mjög svekktur að hafa misst þetta niður,“ sagði niðurlútur Ásgeir Marteinsson í leikslok.

Aðspurður hvort það hefði verið lögð mikil áhersla á að mæta Blikum af krafti strax í upphafi leiks þá hafði Ásgeir þetta að segja; „Algjörlega. Við ætluðum að pressa þá og gefa þeim ekki neinn tíma á boltanum því við vitum allir hvað þeir eru góðir í fótbolta. Mér fannst menn vel stemmdir og mér fannst að á venjulegum degi hefðum við lokað þessu og ekki fengið á okkur þessi mörk í lokin.“

Ásgeir var kominn út af þegar gestirnir náðu að minnka muninn og jafna svo. Hann viðurkenndi að væri mun erfiðara að fylgjast með á bekknum heldur en inn á vellinum.

„Þetta er hryllingur. Maður er 100 sinnum stressaðri á bekknum heldur en þegar maður er inn á, ég gat ekki haldið mér rólegum og það var ömurlegt að sjá seinna markið fara inn.“

Ásgeir bæði skoraði og lagði upp en hann vildi lítið gefa upp um persónuleg markmið sín í sumar.

„Ég er með einhver einstaklingsmarkið sem ég ætla kannski ekkert að gefa upp hér. Ég ætla bara að gera mitt besta fyrir liðið og halda okkur uppi. Það er mitt markmið,“ sagði þessi lunkni leikmaður að lokum.

Viktor í baráttu við Bjarna Gunnarsson.vísir/bára
Viktor Örn: Kominn með fleiri en bróðir minn allavega

„Úr því sem komið var þá var þetta mjög sætt. Við vorum undir í langflestu út á velli svo það var kærkomið að ná í stigið þarna í lokin,“ sagði Viktor Örn Margeirsson aðspurður út í hvernig það hefði verið að bjarga stigi úr leik þar sem Blikar áttu í raun skilið að fara stigalausir úr.

Líkt og Ágúst Gylfason, þjálfari Breiðabliks, gerði eftir leik þá talaði Viktor Örn um liðsanda og karakterinn sem býr í Blika liðinu en hann kunni þó engin svör við því af hverju Blikar mættu ekki til leiks fyrr en undir lokin.

„Ég veit það ekki, vorum ekki að þora að taka þessar sendingar sem við erum vanir að taka, lélegir á boltann, vorum undir í 50/50 boltunum. Ég veit ekki hvort menn komu eitthvað illa stemmdir í þetta en ég í raun hef ekki svörin.“

Það var þó stutt í léttu hliðina hjá Viktori sem er nú aðeins einu marki frá því að jafna markafjölda sinn frá því í fyrra.

„Ég setti nú tvö í fyrra, maður hefur þetta í sig. Ég er kominn með einhver fleiri en bróðir minn allavega og það er fínt,“ sagði varnarmaðurinn knái að lokum.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira