Skoðun

Að ferðalokum námsmanna erlendis

Jóhann Gunnar Þórarinsson skrifar
Ár hvert yfirgefa fjölmargir íslenskir námsmenn öryggisnet sitt heima fyrir og leggja land undir fót og hefja nám erlendis. Til að allir námsmenn hafi sama tækifæri til náms erlendis án tillits til efnahags gefur augaleið að nauðsynlegt er að veita lán eða styrk vegna ferðakostnaðar.

Það er enn mikilvægara þegar haft er í huga að LÍN hefur í gegnum árin almennt lánað vegna framfærslu fyrir 9 mánuði en námsmenn hafa sjálfir þurft að brúa bilið yfir sumartímann. Það er enn fremur mikilvægt að hafa í huga að í mörgum tilvikum er illmögulegt fyrir námsmenn erlendis að finna sér vinnu í sínu námslandi og fá þeir jafnvel ekki atvinnuleyfi.

Í úthlutunarreglum LÍN fyrir námsárið 2013-2014 var reglan almennt sú að lánað væri fyrir ferðakostnaði að ákveðinni fjárhæð á hverju ári. Fyrir námsárið 2014-2015 var gerð sú breyting að nú væri einungis veitt lán vegna ferðakostnaðar á hverju námsstigi. Þetta leiddi til þess að þeir sem lögðu stund á 6 ára nám erlendis, t.d. í læknisfræði, fengu einungis lánað einu sinni nánar tilgreinda fjárhæð.

Þann 1. nóvember sl. lagði Mennta- og menningarmálaráðherra fram frumvarp á Alþingi um Menntasjóð námsmanna (Menntasjóður) sem felur í sér nýtt námsaðstoðarkerfi fyrir íslenska námsmenn. Stjórn SÍNE vinnur nú að formlegri umsögn vegna frumvarpsins en SÍNE hefur áður gert þó nokkrar athugasemdir við drög að frumvarpi um Stuðningssjóð íslenskra námsmanna (SÍN) sem birt voru fyrr í sumar á Samráðsgátt stjórnvalda.

Í frumvarpi um Menntasjóðinn liggur fyrir að einungis verður um heimild til láns vegna ferðakostnaðar fyrir stjórn sjóðsins að ræða. Þá verður ekki séð í frumvarpinu eða í athugasemdum með því að að gert sé ráð fyrir að lán verði veitt vegna ferðakostnaðar á hverju ári eða að almennt verði lánað fyrir meira en 9 mánuðum.

Það skýtur vægast sagt skökku við að meðan 1. gr. frumvarps um Menntasjóð námsmanna kveður á um að markmiðið sé að tryggja þeim sem falla undir lögin tækifæri til náms, án tillits til efnahags og stöðu að öðru leyti, að ekki sé gert að skyldu að veitt sé lán eða styrkur vegna ferðakostnaðar fyrir hvert námsár.

Það er því von SÍNE að þegar kemur að ferðalokum námsmanna erlendis að þeirra spor verði ekki þyngri en annarra bara fyrir það eitt að þeir ákváðu að stunda nám sitt erlendis.

Greinarhöfundur er formaður stjórnar SÍNE og er greinin hluti af herferð Landssamtaka íslenskra stúdenta - LÍS um fjárfestingu í menntun vegna frumvarps um Menntasjóð námsmanna.




Skoðun

Skoðun

BRCA

Elín Íris Fanndal Jónasdóttir skrifar

Sjá meira


×