Fótbolti

Bayern kom til baka gegn félögum Alfreðs

Ástrós Ýr Eggertsdóttir skrifar
Leikmenn Bayern fagna í kvöld
Leikmenn Bayern fagna í kvöld vísir/getty
Liðsfélagar Alfreðs Finnbogasonar í Augsburg töpuðu fyrir Bayern München í þýsku Bundesligunni í kvöld.

Alfreð er meiddur á kálfa og var því ekki með í leiknum í kvöld. Leikurinn byrjaði eins vel og óskast getur fyrir heimamenn þegar Leon Goretzka skoraði sjálfsmark strax á fyrstu mínútu.

Kingsley Coman jafnaði hins vegar fyrir Bayern stuttu seinna áður en Ji Dong-Won kom heimamönnum aftur yfir. Það stefndi allt í að Augsburg færi með forystu inn í leikhléið en í uppbótartíma fyrri hálfleiks skoraði Coman sitt annað mark og jafnaði metin á ný.

Í upphafi seinni hálfleiks skoraði David Alaba svo sigurmarkið fyrir Bayern eftir sendingu frá Coman.

Bayern minnkaði því forskot Dortmund á toppi deildarinnar niður í tvö stig, en Dortmund á leik til góða. Augsburg er enn í fallbaráttu, er þremur stigum frá fallsæti.

Juventus átti ekki í miklum vandræðum með að sigra Frosinone í ítölsku Seria A deildinni. Paulo Dybala kom Juventus yfir strax á sjöttu mínútu og tíu mínútum síðar var Leonardo Bonucci búinn að tvöfalda forystu heimamanna.

Cristiano Ronaldo skoraði svo þriðja og síðasta mark Juventus í seinni hálfleik eftir sendingu frá Mario Mandzukic.

Juventus hefur enn ekki tapað leik í ítölsku deildinni eftir 24 leiki, er með 14 stiga forskot á Napólí sem á þó einn leik til góða. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×