Erlent

Boðað til kosninga á Spáni í lok apríl

Kjartan Kjartansson skrifar
Sánchez tilkynnti um boðun kosninga að loknum aukaríkisstjórnarfundi í Moncloa-höllinni í Madrid í morgun.
Sánchez tilkynnti um boðun kosninga að loknum aukaríkisstjórnarfundi í Moncloa-höllinni í Madrid í morgun. Vísir/EPA
Pedro Sánchez, forsætisráðherra Spánar, tilkynnti í dag að hann ætlaði að boða til nýrra þingkosninga 28. apríl eftir að spænska þingið felldi fjárlagafrumvarp ríkisstjórnar Sósíalistaflokks hans á miðvikudag.

Ríkisstjórn Sánchez hefur þurft að reiða sig á stuðning tveggja flokka katalónskra sjálfstæðissinna í þinginu. Þeir neituðu að styðja fjárlagafrumvarpið nema Sánchez samþykkti viðræður um sjálfsákvörðunarrétt Katalóníu. Þeir greiddu atkvæði gegn frumvarpinu.

Aðeins rúmir átta mánuðir eru síðan Sánchez komst til valda þegar þingið samþykkti vantraust á ríkisstjórn Mariano Rajoy og Lýðflokksins.

„Ríkisstjórn hefur þó skyldu að sinna verkefnum sínum: samþykkja lög, stjórna, þoka málum áfram. Þegar einhverjir flokkar koma í veg fyrir að ákvarðanir séu teknar verður að boða til kosninga,“ sagði Sánchez í Moncloa-höllinni, bústað og skrifstofu forsætisráðherrans í morgun.

Þingkosningarnar fara fram mánuði áður en Spánverjar kjósa í héraðs-, sveitarstjórnar- og Evrópuþingskosningum.


Tengdar fréttir

Réttarhöldin sögð vera farsi

Réttarhöldin yfir leiðtogum katalónsku sjálfstæðishreyfingarinnar hófust við hæstarétt Spánar í Madrid í gær. Málið má rekja til sjálfstæðisatkvæðagreiðslu og -yfirlýsingar haustið 2017.

Fjöldamótmæli í Madrid: Hægrimenn krefjast þingkosninga

Lögregluyfirvöld áætla að um 45 þúsund manns hafi fjölmennt á mótmælin sem fóru fram á Colón torgi í borginni. Mótmælendur kröfðust þess að boðað yrði til kosninga en skoðanakannanir sýna að flokkarnir þrír, sem boðuðu til mótmælanna, gætu myndað meirihlutastjórn ef gengið yrði til þingkosninga í dag.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×