Innlent

Reyndi að stinga lögreglu af á vespu

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Mikið var um tilkynningar vegna hávaða frá heimahúsum í gærkvöldi og nótt.
Mikið var um tilkynningar vegna hávaða frá heimahúsum í gærkvöldi og nótt. Vísir/Vilhelm
Lögregla hafði í gærkvöldi afskipti af tveimur ungmennum á vespu við Seljaskóga í Breiðholti. Þegar lögregla gaf stöðvunarmerki með bláum ljósum reyndi ökumaðurinn að aka burt af vettvangi en stöðvaði svo skömmu síðar. 

Í dagbók lögreglu segir að vespan hafi verið óskráð og ökumaðurinn réttindalaus. Málið var afgreitt með aðkomu foreldra.

Þá var lögreglu tilkynnt um mann í annarlegu ástandi á áttunda tímanum í gærkvöldi þar sem hann var að sparka í bíla og annað sem á vegi hans varð. Maðurinn var handtekinn og vistaður sökum ástands í fangageymslu lögreglu.

Ekki hlaust sjáanlegt tjón af völdum mannsins. Hann vildi ekki segja til nafns og er grunaður um vörslu fíkniefna og brot á lögreglusamþykkt, auk fleiri brota.

Skömmu eftir klukkan sex í gær var tilkynnt um umferðaróhapp á Reykjanesbraut í Kópavogi. Í dagbók lögreglu segir að annar ökumaðurinn hafi verið ölvaður. Hann var handtekinn og vistaður í fangageymslu fyrir rannsókn málsins.

Á tíunda tímanum var tilkynnt um eld í bifreið við Seljaskóla, líkt og Vísir greindi frá í gærkvöldi. Haft er eftir vitnum í dagbók lögreglu að unglingar hafi kveikt í bifreiðinni. Málið er í rannsókn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×