Innlent

Stórtækir vasaþjófar herja á ferðamenn

Jakob Bjarnar skrifar
Ferðamenn við Gullfoss. Villi Goði fullyrðir að stórtækur vasaþjófur hafi látið greipar sópa á Gullfoss Café á dögunum.
Ferðamenn við Gullfoss. Villi Goði fullyrðir að stórtækur vasaþjófur hafi látið greipar sópa á Gullfoss Café á dögunum. visir/vilhelm
Baldvin Jónsson skrifar inn á Facebookhópinn Bakland Ferðaþjónustunnar, þar sem aðilar ferðaþjónustu koma saman og bera bækur sínar, og varar við vasaþjófnaði.

„Vildi koma þessu á framfæri á sem víðsóttustum stað hér á Facebook. Ég tók þetta ekki trúanlegt í fyrstu, en er núna búin að heyra þetta frá þremur mismunandi gædum og hópum, en það er farið að bera á vasaþjófnaði hér heima á mest sóttu ferðamannastöðunum,“ segir Baldvin og ljóst að honum lýst ekki á blikuna.

„Ókunnugir sem gefa sig að fólki og bjóða þeim að taka myndir af þeim og ræna þau á meðan að samtalið fer fram. Endilega varið gestina ykkar við þessu. Þetta er leiðinda óværa sem er um að gera að varast og verjast af krafti.“

Ýmsir sem starfa við ferðaþjónustuna kannast við þetta en ekki liggur fyrir hverjir hinir óprúttnu þjófar eru. Enginn hefur enn verið gripinn, eftir því sem þeir sem tjá sig um málið á Baklandinu komast næst.

Tónlistarmaðurinn Villi Goði, sem lengi hefur starfað við ferðaþjónustu sem fararstjóri, segir að vasaþjófur hafi verið á ferð á Gullfoss Café um daginn.

„Að láta greipar sópa. Ég stóð við innganginn með Svavari að reyna að spotta en það var vonlaust mál.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×