Erlent

19 ára bandarískur ferðamaður játaði á sig morðið á ítölskum lögreglumanni

Eiður Þór Árnason skrifar
Ítalskir fjölmiðlar greindu upphaflega frá því að hinir grunuðu væru frá Norður-Afríku.
Ítalskir fjölmiðlar greindu upphaflega frá því að hinir grunuðu væru frá Norður-Afríku. Vísir/AP
19 ára bandarískur ferðamaður hefur játað á sig morð á ítölskum lögreglumanni í Róm. Maðurinn var á ferðalagi með 18 ára vini sínum sem hefur einnig verið handtekinn fyrir meinta aðild sína að morðinu. Þeir hafa báðir játað aðild sína.

Lögreglumaðurinn Mario Cerciello Rega var stunginn til bana í höfuðborginni snemma á föstudagsmorgun, einungis fáeinum vikum eftir brúðkaupsferð hans lauk.

Hann var kallaður á vettvang eftir að lögreglu barst tilkynning um þjófnað.

Talið er að hinir grunuðu hafi stolið bakpoka af fíkniefnasala sem seldi þeim eftirlíkingar í Trastevere hverfinu í Róm. Þeir buðust til að skila pokanum aftur gegn gjaldi og biðu eftir því að hitta fíkniefnasalann þegar Rega og annar lögregluþjónn nálgaðist þá.

Í kjölfarið brutust út átök og hlaut Rega þónokkur stungusár. Hann var færður á sjúkrahús þar sem hann lést af sárum sínum.

Hinir grunuðu voru síðar sóttir af lögreglu á hótel sitt. Morðið hefur vakið mikla athygli á Ítalíu og hafa fjölmargir syrgt andlát lögreglumannsins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×